Vantraust á ráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar

17. fundur
Mánudaginn 24. október 1994, kl. 21:12:50 (659)

[21:12]
     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegur forseti. Góðir tilheyrendur. Ræða og tillöguflutningur hæstv. forsrh. hér áðan markar tímamót í sögu þings og þjóðar. Það að forsrh. skuli leyfa sér að flytja frávísunartillögu á vantraust á eigin ríkisstjórn og um leið vantraust á eigin verk lýsir auðvitað óskaplegum valdhroka og skorti á siðferðiskennd. En það er meira en það því þessi tillöguflutningur er brot á þingræðinu. Eftir stendur ríkisstjórn sem ekki er vitað hvort hefur þingmeirihluta eða ekki. Og forsrh. hæstv. mun það sem eftir lifir þessa kjörtímabils sitja í þeirri stöðu að það er ekki ljóst hvort hans ríkisstjórn hér á hv. Alþingi hafi meiri hluta eða ekki.
    Nokkrir hv. þm. stjórnarandstöðunnar hafa lýst því yfir í fjölmiðlum að þeir vantreysti einstökum ráðherrum og geti ekki forsvarað þeirra verk. En þeir þingmenn sem þessu hafa lýst og ætla nú hér í atkvæðagreiðslu á eftir að greiða atkvæði með því að vísa þessari tillögu stjórnarandstöðunnar frá, þeir þingmenn Sjálfstfl. sem það gera eru að leggja blessun sína yfir verk ráðherra Alþfl. Og þeir þingmenn Alþfl. sem það munu gera eru að leggja blessun sína yfir verk ráðherra Sjálfstfl.
    Gífuryrði hæstv. forsrh. hér áðan um tillögu stjórnarandstöðunnar dæma sig sjálf. En það að halda því fram að hún brjóti í bága við hefðir þingsins er alvörudómur og mikill áfellisdómur yfir virðulegum forseta Alþingis, forseta Alþingis sem kemur úr sama stjórnmálaflokki og hæstv. forsrh., Davíð Oddsson. Að halda því fram að slík tillaga hafi verið tekin hér til umræðu sem brjóti í bága við starfshætti og þinghefðir Alþingis er þungur áfellisdómur. En það er gleðilegt til þess að vita að hæstv. forsrh. hafi orðið áhyggjur af virðingu Alþingis. Sá maður sem fyrir fáum missirum síðan líkti þessari virðulegu stofnun við gagnfræðaskóla.
    Hæstv. forsrh. segir að þessi tillaga stjórnarandstöðunnar sé leikaraskapur en það er ekki, hæstv. forsrh., leikaraskapur þegar ráðherrar í þinni ríkisstjórn, hæstv. forsrh., bera hver annan mjög þungum sökum, ásaka hver annan um lögbrot. Þá er það ekki leikaraskapur þó hér sé flutt till. til þál. um vantraust á slíka menn. Það er hins vegar leikaraskapur, hæstv. forsrh., að skora á stjórnarandstöðuna á Alþingi að koma fram með vantraust á ríkisstjórn. Síðan þegar vantraustið kemur fram bregst hæstv. forsrh. við, reiður og fúll, og segir að þetta sé allt saman óþinglegt.
    Forsrh. sagði það áðan að 2. flm., sá sem hér stendur, hefði talið það meginástæðu fyrir því að flytja mætti vantraust á alla ráðherra í ríkisstjórninni að þeir sætu í ríkisstjórn og það óvinsælli ríkisstjórn.

    Hæstv. forsrh. gerði lítið úr þessu. Það er hins vegar svo að einn okkar besti stjórnlagaprófessor, Ólafur heitinn Jóhannesson, segir í bók sinni ,,Stjórnskipun Íslands``, með leyfi forseta: ,,Ráðherrar geta glatað trausti Alþingis þó þeir hafi ekki framið nein lögbrot. Þeir bera auðvitað siðferðilega ábyrgð á verkum sínum eins og aðrir menn og njóta trausts og virðingar eftir því og þeir bera pólitíska ábyrgð athafna sinna og athafnaleysis gagnvart Alþingi.`` --- Það er athafnaleysið, hæstv. forsrh., sem hér er um að ræða. Það að sitja í ríkisstjórn sem hefur skapað hér það atvinnuleysi að þúsundir manna ganga atvinnulausir. Að sitja í ríkisstjórn og ætla að skera niður um 850 millj. kr. á næsta ári ellilífeyri og örorkulífeyri en afnema á sama tíma hátekjuskatt. Að hafa lagt milljarða króna skattálögur á ellilífeyrisþega, á öryrkja og þá sem minnst mega sín í þjóðfélaginu en skunda á sama tíma til Þingvalla og halda þar veislur fyrir Donovan og Hrafn. Slík framkoma og slík vinnubrögð á að fordæma og það er á þeim forsendum sem hér er flutt vantraust á ríkisstjórnina.
    Það er athafnaleysið sem fyrrv. forsrh. þjóðarinnar, Ólafur heitinn Jóhannesson, gerir að megininntaki í sínu riti. Hæstv. forsrh., sem segir oft í umræðu að hann sé lögfræðingur, að hann sé nú lögfræðingur og hæstv. forsrh. gerir sig breiðan fyrir framan þjóðina því hann einn viti og hann einn hafi á réttu að standa. En hæstv. forsrh. væri nær að hafa lesið stjórnskipunarrétt Ólafs heitins Jóhannessonar áður en slíku er haldið fram.
    Það er alvarlegt ástand í þjóðfélagi þar sem 60% aukning hefur orðið á þeim hópi sem þarf að leita fjárhagslegrar aðstoðar félagsmálastofnunar og það er fjöldi fólks í þessu þjóðfélagi sem þarf á þeirri aðstoð að halda. Það eru fjölmargar fjölskyldur sem ekki eiga fyrir brýnustum nauðþurftum. Þetta fólk spyr í dag: Hvar eru skattalækkanirnar sem Sjálfstfl. með forsrh., Davíð Oddsson, í broddi fylkingar lofaði þjóðinni fyrir síðustu alþingiskosningar? Hvar eru 80.000 kr. skattleysismörkin sem Alþfl. lofaði þjóðinni, sem Alþfl. lofaði þessu fólki fyrir síðustu kosningar? En þetta fólk horfir nú upp á einkavinavæðinguna þar sem fjármununum er rótað út úr ráðuneytunum til einkavinanna, þar sem ríkisfyrirtækin eru gefin flokksgæðingunum. Ríkisstjórn sem hagar sér með þessum hætti á vantraust skilið og á að fara frá. --- Góðar stundir.