Vantraust á ráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar

17. fundur
Mánudaginn 24. október 1994, kl. 21:50:38 (663)

[21:50]
     Jóhanna Sigurðardóttir :
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Við þessa umræðu vil ég láta í ljós þá skoðun mína að öll rök mæla með því að ríkisstjórnin fari frá og boðað verði sem fyrst til kosninga.
    Séu hagsmunir þjóðarheildarinnar, atvinnulífsins og heimilanna hafðir að leiðarljósi þá er þetta rökrétt niðurstaða. Rökin eru margvísleg. Ríkisstjórnin hefur lagt fram sitt síðasta fjárlagafrv. á þessu kjörtímabili. Þar kemur fram að efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar ekki aðeins fyrir árið 1995 heldur efnahagsstefna fram til ársins 1998 fengju þessir flokkar áframhaldandi umboð að loknum næstu kosningum. Um þessa efnahagsstefnu verður aldrei friður í þjóðfélaginu því hún bíður heim áframhaldandi misrétti og hefur m.a. verkalýðshreyfingin hafnað þeirri stefnu sem birtist í fjárlagafrv. Þessi efnahagsstefna misbýður þjóðinni því í henni felst engin réttsýni. Það telst hvorki stjórnlist né réttsýni að viðhalda stöðugleika í efnahagslífinu með því að halda hálfri þjóðinni undir hungurmörkum í launakjörum, þrengja sífellt að velferðarkerfinu, viðhalda auðsöfnun á fárra manna hendur og misrétti í tekjuskiptingunni.
    Ég skorast ekki undan ábyrgð á gjörðum þessarar ríkisstjórnar á meðan ég var ráðherra. En mörg stóðum við í þeirri trú að fyrsta verk ríkisstjórnarinnar þegar betur áraði yrði að skila batanum til að bæta stöðu láglaunaheimilanna. Það er öðru nær og ekkert sannar betur að afsögn mín sem ráðherra í sumar var réttmæt. Áfram er haldið þó uppsveifla og bati séu boðuð í efnahagslífinu að skerða þjónustu, kjör, bótagreiðslur og aðbúnað aldraðra, fatlaðra og atvinnulausra og annarra sem höllum fæti standa.
    Skattastefna ríkisstjórnarinnar sem endurspeglar skattaparadís fyrirtækja og fjármagnseigenda skal áfram standa þrátt fyrir efnahagsbatann en skattaklyfjarnar áfram lagðar af fullum þunga á þá sem síst skyldi. Skattaparadís fyrirtækjanna og láglaunasvæðið Ísland er síðan kynnt erlendum fjárfestum eins og Singapore norðursins því vinnuaflskostnaðurinn sé svo lítill hér á landi samanborið við önnur lönd.
    Í vaxandi samkeppni við aðrar þjóðir er fjárfesting í menntun lykilatriði en batinn er ekki nýttur til þeirrar nýsköpunar í atvinnulífinu sem fjárfesting í menntun felur í sér. Þvert á móti er enn þrengt að menntakerfinu, aðgang námsmanna á að takmarka að háskólanum enda svo komið að háskólaráð spyr hvort það sé stefna stjórnvalda að gera Háskóla Íslands að annars flokks háskóla og flytja æðri menntun Íslendinga úr landi.
    Svo er líka þrengt að heilbrigðiskerfinu og sjúkrahúsunum að því er m.a. lýst yfir af Borgarspítalanum að verði ekki breyting á stefnu stjórnvalda þá blasi við stórfelldur niðurskurður á þjónustu. Stefnt sé í fjöldauppsagnir og að óbreyttu sé búið að lama hlutverk spítalans sem helsta slysa- og bráðasjúkrahús landsins.
    Á sama tíma og þessi stefna stjórnvalda í heilbrigðis- og menntamálum og aðbúnaður þeirra verst settu birtist okkur í fjárlögum eru þeir sem peningana eiga í þjóðfélaginu áfram undir verndarvæng stjórnvalda. Það er bannorð á stjórnarheimilinu að skattleggja 160 milljarða peningalegar eignir hátekjufólksins sem margt er með 40--50 millj. í skattfrjálsum peningalegum eignum. Á sama tíma skulu þúsundir fjölskyldna í landinu sem lifa á sultarlaunum áfram bera byrðarnar, heimilin sem eru með skuldir langt umfram eignir og hafa enga möguleika til að draga taprekstur heimilanna frá skattgreiðslum sínum eða fá skuldir sínar afskrifaðar eins og fyrirtækin. Enda er svo komið að einstaklingar sem tóku á sig 5--6 milljarða af sköttum fyrirtækja juku skuldir sínar í bankakerfinu á sl. 12 mánuðum um 4 milljarða kr. á sama tíma og fyrirtækin minnka skuldir sínar við bankakerfið um 9 milljarða kr.
    Það eru þjóðarhagsmunir í húfi að ríkisstjórn sem hefur ekkert annað markmið en að sitja í stólunum út kjörtímabilið og knýja í gegn óraunhæf fjárlög sem að auki þrengja að heimilunum og auka á misskiptinguna í þjóðfélaginu fari frá sem fyrst. Við þetta bætist að í stefnir að atvinnuleysi muni aukast verulega umfram það sem ríkisstjórnin áætlar á næsta ári, m.a. vegna 25% samdráttar í fjárfestingum hjá hinu opinbera, óraunhæfra áforma um fjárfestingar einkaaðila og áfram er byggt á átaksverkefnum ríkis- og sveitarfélaga og veiðum í Smugunni en um báða þessa þætti ríkir algjör óvissa.
    Vaxtastefna ríkisstjórnarinnar er auk þess að fara úr böndum, sem m.a. lýsir sér í misvísandi afstöðu einstakra ráðherra um hvort vextir séu að hækka eða lækka. Síaukinn flótti er með fjármagn úr landi, m.a. stærstu fjárfestarnir, lífeyrissjóðirnir, sem auk þess höfðu í lok annars ársfjórðungs þessa árs fjárfest nær sjö milljarða á óbundnum reikningum í bankakerfinu með 5% vöxtum auk verðtryggingar í stað ríkispappíra. Það sýnir einnig að vaxtastefna ríkisstjórnarinnar er hrunin og að öngþveiti getur skapast hér á peninga- og vaxtamarkaðnum á næstunni.
    Góðir Íslendingar. Þegar slíkar blikur eru á lofti og kjarasamningar fram undan þarf þjóðin fyrst og fremst á að halda sterkri og samhentri ríkisstjórn sem eyðir þeirri óvissu sem hvarvetna ríkir í efnahags- og atvinnulífinu. Þjóðin þarf ríkisstjórn sem setur ábyrgð og bætt siðferði í atvinnu, viðskiptalífi og stjórnmálum í öndvegi. Ríkisstjórn sem hefur sem forgangsverkefni jöfnuð í lífskjörum fólksins. Ríkisstjórn sem breytir skipan skattamála láglaunafólki í hag. Ríkisstjórn sem mótar markvissa fjölskyldustefnu og leggur nýjar áherslur í velferðarmálum. Ríkisstjórn sem hefur traust aðila vinnumarkaðarins í erfiðum kjarasamningum sem fram undan eru. Þá traustu leiðsögn sem þjóðin þarf á að halda er þessi ríkisstjórn ófær um að veita vegna innbyrðis sundurlyndis og stefnuleysis við stjórn landsmálanna.
    Hér er ekki flutt af stjórnarandstöðunni hefðbundið vantraust á ríkisstjórnina í heild sem ég hefði stutt á þeirri forsendu sem ég hef lýst. Eins og stjórnarandstaðan hefur kosið að leggja upp með þennan málatilbúnað finnst mér hann heldur hæpinn og mun því sitja hjá við afgreiðslu á þeirri tillögu sem hér er til umræðu. Ég tel engu að síður að tillagan eigi að fá lýðræðislega afgreiðslu á Alþingi og mun því greiða atkvæði gegn frávísunartillögu hæstv. forsrh.