Vantraust á ráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar

17. fundur
Mánudaginn 24. október 1994, kl. 21:59:25 (664)


[21:59]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég held að það sé lítill vafi á því að hæstv. forsrh. Davíð Oddsson komist á spjöld

þingsögunnar sem fyrsti forsætisráðherra Íslands sem ekki þorir að láta vantraustillögu um eigin ríkisstjórn ganga til atkvæða. Venjan er sú í þingbundnum ríkisstjórnum að forsætisráðherrum er það keppikefli að fá vantrauststillögur teknar fyrir sem fyrst og felldar og sýna með því að þeir hafi þingræðislegan meiri hluta á bak við sig. Hæstv. forsrh. Davíð Oddsson er ábyggilega eini vestræni forsætisráðherrann sem stýrir þingbundinni ríkisstjórn sem grípur til þess óvenjulega úrræðis að afstýra atkvæðagreiðslu um vantrauststillögu á eigin stjórn með frávísunartillögu. Fátt og eiginlega ekkert undirstrikar betur veika stöðu þessarar stundurtættu ríkisstjórnar sem öll þjóðin veit auðvitað að þarf að fara frá hið fyrsta, en ætlar nú að reyna að bjarga sér á þingtæknilegum brellum af þessu tagi. Þetta er auðvitað hneyksli og óþingræðislegt, hæstv. forseti. Ég segi nei.