Staða garðyrkju- og kartöflubænda

21. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 15:21:43 (896)


[15:21]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Aðeins örfáar upplýsingar um orkumál sem þessum umræðum tengjast. Eins og kunnugt er þá hófu Rafmagnsveitur ríkisins 1. jan. 1993 að selja orku á nýjum taxta. Taxtinn er sniðinn fyrir þá notendur sem hægt er að víkja orkunni af markaði um stundarsakir þegar mesta álagið er í innkaupum Rafmagnsveitnanna. Notandanum er í sjálfsvald sett hvort rofið er eða greitt hærra verð tímabundið.
    Salan til lýsingar á gróðurhúsum var meginástæða þess að taxtinn var tekinn upp og nú kaupa sex garðyrkjubændur á orkuveitusvæði Rafmagnsveitnanna orku samkvæmt honum, auk garðyrkjubænda á orkuveitusvæði Rafveitu Hveragerðis, sem eiga kost á svipuðum kjörum vegna samninga Rafmagnsveitna ríkisins við þá veitu. Auðvitað er sá galli á að hér um rofinn taxta að ræða og á sama tíma og álagstíminn er mestur hjá Rafmagnsveitunum er álagstíminn einnig mestur eða lýsingarþörfin mest hjá garðyrkjubændum.
    Þá hefur einnig Landsvirkjun frá og með sama tíma veitt afslátt á svokallaðri umframorku, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Skilyrðin eru m.a. þau að um mikla umframorkukaupendur sé að ræða. Landsvirkjun hefur gefið þá undanþágu á þessari túlkun að hún lítur á garðyrkjubændur sem heild, sem einn kaupanda, og heimilar því afslátt af orkusölu til þeirra sem heildar. Það er síðan þeirra sjálfra að skipta á milli sín afslættinum. Þetta hefur Landsvirkjun ekki samþykkt gagnvart neinni annarri atvinnugrein, við skulum nefna t.d. málmiðnað, að líta á málmiðnaðinn sem eina grein og þá sem einn orkukaupanda. Þannig að

þarna hefur verið reynt að koma til móts við garðyrkjubændur eins og framast er unnt.
    Ég vil einnig staðfesta það sem kom fram hjá hæstv. landbrh. að rannsóknarverkefni í lýsingu á tómötum og papriku í gróðurhúsum er í undirbúningi undir forustu garðyrkjubænda, en með stuðningi Rafmagnsveitu ríkisins og Landsvirkjunar. Hins vegar er ljóst, virðulegi forseti, að það verður alltaf erfitt ef það á að tryggja garðyrkjubændum á Íslandi orku á verði sem nægir til að keppa við orku sólarljóssins á suðlægari slóðum.