Staða garðyrkju- og kartöflubænda

21. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 15:24:05 (897)


[15:24]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Þegar EES-samningurinn var til meðferðar hér í þinginu lá ljóst fyrir að hann mundi hafa nokkur áhrif á kjör garðyrkjubænda vegna þess innflutnings sem leyfður er yfir vetrarmánuðina. Garðyrkjubændur sem komu á fund landbn. meðan samningurinn var til meðferðar gerðu heldur lítið úr þessum áhrifum, en nú eru þeir að vakna upp við vondan draum og gera kröfu til þess að samkeppnisstaða þeirra verði bætt. Það hefur verið eitt meginmarkmið aðgerða ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum á undanförnum árum að búa fyrirtækin í landinu undir vaxandi samkeppni, m.a. vegna EES-samningsins, og að bæta samkeppnisstöðu þeirra, einkum með því að létta af þeim sköttum. Hið sama hlýtur að gilda um innlenda landbúnaðarframleiðslu. Hún á að sitja við sama borð og innflutt matvara, þótt erfitt sé að mæta þeim miklu niðurgreiðslum og styrkjum sem tíðkast hjá Evrópusambandinu. Garðyrkjubændur hafa bent á leiðir til úrbóta og þær þarf að skoða vandlega jafnframt því að leita annarra leiða ef þeirra tillögur duga ekki til.
    Það hefur legið lengi fyrir að garðyrkjubændur yrðu fyrir búsifjum í kjölfar EES-samningsins og því hljótum við að spyrja: Hvaða aðgerðir hafa verið undirbúnar eða eru fyrirhugaðar til að mæta vaxandi erfiðleikum bænda? Svo mikið er víst að ekki hefur verið gripið til þeirra aðgerða sem duga hingað til. Það er engin lausn fyrir íslenska þjóðarbúið að fórna landbúnaðinum á altari Evrópusambandsins eins og Finnar hyggjast gera við inngönguna í ESB eða ætla að lifa á þrautpíndri jörð Evrópu. Það kemur að því að menn verða að snúa blaðinu við í evrópskum landbúnaði vegna þeirrar miklu mengunar sem hann veldur vegna verksmiðjubúskaparins sem smátt og smátt er að ryðja hefðbundnum fjölskyldubúskap úr vegi og vegna þeirrar slæmu meðferðar á skepnum sem fjöldaframleiðslan hefur í för með sér. Evrópusambandið getur ekki endalaust haldið verði á matvælum niðri og skert alla samkeppni í landbúnaði. Þegar þar að kemur verður betra að byggja á eigin framleiðslu, en hún þarf að vera skynsamleg og byggjast á búskap sem stendur undir sér.
    Virðulegi forseti. Það er verk að vinna í endurskipulagningu íslensks landbúnaðar, þar með talið í garðyrkju- og kartöflurækt. Vinnan þarf að beinast að því að efla innlenda framleiðslu, gera hana hagkvæmari og hæfari til að standast óhjákvæmilega samkeppni. Það er ekki seinna vænna að bregðast við áhrifum EES-samningsins og væntanlegs GATT-samnings á íslenskan landbúnað, en eins og mál líta nú út, virðulegi forseti, verður það verkefni nýrrar ríkisstjórnar því sem betur fer er að koma að skuldadögum.