Staða garðyrkju- og kartöflubænda

21. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 15:33:07 (901)


[15:33]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Því miður er sá tími sem menn hafa til umræðu um þessi vandamál allt of stuttur eins og svör ráðherra báru með sér. Hann hafði ekki tíma til að fara yfir nema helminginn af þeim atriðum sem hann var spurður um. Það eru núna að koma í ljós afleiðingarnar af EES-samningnum og menn hafa svo sem heyrt fréttir undanfarna daga. Það sem var til umræðu í þinginu t.d. um Áburðarverksmiðjuna er mönnum að verða ljóst núna. Hún mun ekki verða rekin lengur en kannski fram á næsta ár. Þar eru að tapast mörg störf. Garðyrkjunni var fórnað fyrir klaufaskap. Menn hafa orðið að viðurkenna að það er stuðningur við garðyrkju í EB-löndunum upp á a.m.k. 25% sem ekki var gert ráð fyrir í samningum hér. Þannig hefur ríkisstjórnin gjörsamlega brugðist í því að verja íslenskan atvinnuveg vegna þeirra samninga sem hafa verið gerðir.
    Mér þótti dálítið undarlegt að hv. fyrirspyrjandi skyldi ekki koma að því vegna þess að ég geri ráð fyrir því að hann viti það manna best að eignir garðyrkjubænda hafa snarlega rýrnað í framhaldi af þessum aðgerðum. Það hafa orðið a.m.k. 30%, eða 300 millj. kr., rýrnun á eigum garðyrkjubænda á þessu tímabili sem þýðir að þeir eiga miklu minni möguleika á því að bjarga sér áfram og fá lánsfé til sinnar starfsemi en áður.
    Ég segi bara að lokum, vegna þess að tíminn er búinn, að það er greinilegt að sofið hefur verið á verðinum. Það hefur ekki verið gert neitt sem heitir í því að koma til móts við þarfir garðyrkjubændanna. Menn hafa gefist upp í málinu og ætla hreinlega að horfa með hendur í skauti á þennan atvinnuveg leggjast í rúst. Það blasir ekkert annað við í þessari grein en eymd og volæði. (Forseti hringir.) Meira

að segja garðyrkjustöðvar sem skulda ekki krónu eru reknar með halla um þessar mundir.