Staða garðyrkju- og kartöflubænda

21. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 15:39:24 (904)


[15:39]
     Árni Johnsen :
    Virðulegi forseti. Hér er rætt brýnt mál og mikilvægt og ástæða til að hvetja til að menn fjalli um það í þeim anda að hnýta saman böndin og ræða það frekar ópólitískt en pólitískt. Það er engin ástæða til að kenna einni ríkisstjórn fremur en annarri um stöðu garðyrkjubænda. Þar eiga margir hlut að máli og er rétt að taka á vandanum eins og hann blasir við í dag.
    Það er alveg ljóst að það er mikil skuldsetning í garðyrkjuiðnaði og samdráttur hefur verið sem þarf að bregðast við. Mikil fjárfesting liggur að baki garðyrkjunnar og öll rök til þess að hún eigi að geta spjarað sig við eðlilegar aðstæður í þjóðfélaginu, við eðlilegan grunn sem verður að skapa.
    Ástæðurnar fyrir vanda garðyrkjubænda eru af mörgum toga. Þess vegna þarf að skilgreina ítarlega hvar sá vandi kemur inn. Það er ekki hægt í svo knappri umræðu sem hér er. En það er brýn þörf að það verði gert og von mín að í framhaldi af þeim upplýsingum sem komu fram hjá hæstv. iðnrh. og hæstv. landbrh. verði áfram unnið. Það er sýnt að nokkuð hefur þokast þó hægt fari. Fundur með þingmönnum Suðurlands og Vesturlands var haldinn 24. febr. sl. þar sem var fjallað ítarlega um þessi mál. Menn þekkja vandann en það þarf að fylgja þessu eftir og gera hreinlega hernaðaráætlun til þess að fylgja því fram.
    Það má nefna hér dæmi: Það kom fram hjá málshefjanda vandamálið að sendingar, lágar að upphæð, til landsins fari fram hjá tolli. Það er sýnt að fluttar hafi verið inn nellikkur frá Venesúela þó það eigi ekki að vera hægt. Það hefur verið gert vegna þess að viðmiðunin til þess að sending fari í toll er hálf

millj. kr. Nú hefur landbrh. upplýst að þessu verði fylgt fastar eftir (Forseti hringir.) svo nokkuð fikra menn sig.
    Virðulegi forseti. Ég vil rétt í lokin benda á samdráttinn. Kartöflubændum hefur fækkað úr 400 í 200 og garðyrkjubændum hefur fækkað jafnt og þétt. Við þessu þarf að bregðast með samstilltu átaki en ekki sundrungu.