Staða garðyrkju- og kartöflubænda

21. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 15:51:15 (909)


[15:51]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka þessa umræðu. Ég saknaði þess að vísu að hæstv. landbrh. skyldi vera í 1. gír í umræðunni og spóla talsvert. Ég ætla ekki að gera þetta mál að flokkspólitísku máli. Þetta er mikið mál sem hér er til umræðu í dag. Ég vænti þess að þó þetta hafi hent hæstv. ráðherra, þá reyni hann að vinna að úrbótum. Hann kom ekkert inn á kartöflumálið í sinni ræðu, sem er ekki síður stórt mál heldur en gróðurhúsamálið. Þannig að ég vænti þess að það komi þá frekar fram hjá hæstv. ráðherra í seinni ræðu.
    En þetta snýst um atvinnu, þetta snýst um mannréttindi og síðan er það svo að sá listi sem ég fór hér yfir, sem garðyrkjumenn skrifuðu fyrir ári síðan, að það hefur lítið verið gert sem snýr að aðalatriðum málsins, sem snýr að framtíðinni, snýr að GATT o.s.frv., snýr að innflutningnum og eftirlitinu. Þannig að ég vil nú bara vona það að hæstv. ráðherra fari vel yfir þessi mál.
    Það sem hv. 4. þm. Suðurl. kom hér inn á hvað stofnlánadeildina varðar, þá hefur hún engu breytt í þessari stöðu. Hún gerir það eitt sem hún taldi skyldu sína. Það var að stöðva nýbyggingar í gróðurhúsum til þess að reyna að verja þá við þessar óvissuaðstæður sem eftir standa og hafa búið í þessari grein, að hleypa ekki meiri stækkun áfram við þessar aðstæður. Það var ákvörðun deildarinnar.
    Hér kemur hæstv. utanrrh. enn og segir að ekkert hafi gerst í EES-samningnum. Við vitum það og það vita garðyrkjubændur að óvænt var farið í tvíhliða samninga og það hefur verið farið grannt yfir það að Norðmenn og fleiri gerðu öðruvísi samning, þeir vörðu sína garðyrkju. En hér fengum við inn á okkur innflutning á þeim tegundum sem bændur lifa á og ekki miðað við þær aðstæður sem eru breyttar út af lýsingu og geymslutækni.
    Hæstv. forseti. Ég ætla að lokum að gefa hæstv. landbrh. eintak af nefndarstarfi sem ég vann með hv. þm. Eggert Haukdal og Árna Gunnarssyni, fyrrv. alþm., um það hvernig hér mætti verja kartöfluræktina og koma henni undir skynsamlegt skipulag, bæði til hagsbóta fyrir bændurnar og neytendurnar. Ég vona að hæstv. ráðherra yfirfari þessi mál og taki ákvarðanir í framhaldi af þessari umræðu sem bæði snúa að kartöflurækt og ekki síður að gróðurhúsum.