Verslunarálagning matvæla

22. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 17:06:52 (941)


[17:06]
     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil rétt benda á vegna þeirrar könnunar sem hæstv. ráðherra hyggst beita sér fyrir, að þá er afskaplega einfalt að gera slíka könnun vegna þess að samkeppnisráð eða Samkeppnisstofnun hefur fulla heimild til að kalla eftir verðútreikningum frá innflytjendum. Þannig að það ætti að vera mjög einfalt mál að fara í það. Varðandi þá ábyrgð sem innlendir framleiðendur bera á móti ábyrgð innflytjenda þá mega menn ekki gleyma því að heildsalar bera mjög mikla ábyrgð, þeir sem flytja inn þannig. Þeir bera þá ábyrgð að koma sínum vörum inn í verslanirnar og verslanirnar, þegar þær versla við heildsala, kaupa yfirleitt í mjög litlu magni vegna þess að þá þurfa þær ekki að taka áhættuna. Þannig að ábyrgðin hvílir náttúrlega á innflutningsaðilanum. Þannig að það má með sanni segja að þar sé jöfn ábyrgð á við framleiðandann innan lands.