Kennsla faggreina í netagerð

22. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 17:51:27 (960)


[17:51]
     Fyrirspyrjandi (Pétur Bjarnason) :
    Virðulegi forseti. Netagerð er stunduð víðs vegar um land og er nauðsynlegur þáttur í sjávarútvegi okkar. Samhliða fer þar fram í netagerðum kennsla nema í greininni en þar sem nemendur eru tiltölulega fáir og dreifðir um allt land voru nokkrir erfiðleikar á því framan af að halda uppi bóklegu námi sem er sérhæft í skólum víða um landið. Því varð samstaða meðal netagerðarmanna um að sameinast um einn skóla til að sinna þessum þætti. Fjölbrautaskóli Suðurnesja varð fyrir valinu og honum var falið það verkefni af ráðuneyti með bréfi haustið 1988 og síðar árið 1992 var ákveðið að nám þetta færi þar fram á fjögurra anna fresti eða annað hvert ár. Þar eru til kennslugögn, þar hefur orðið til nokkurt safn af bókum, myndböndum, forritum og ýmsu öðru sem til þessarar kennslu er notað. Í bréfi ráðuneytis frá 26. mars 1992 segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Og getur ráðuneytið því fallist á að faggreinakennsla í netagerð verði aðeins rekin í Fjölbrautaskóla Suðurnesja á fjögurra anna fresti eða annað hvert ár.``

    Samráðsaðilar, þ.e. netagerðarmenn, voru sammála um það að sameinast um þessa kennslu á þessum stað og þótt netagerðarnemar kæmu víðs vegar af landinu, þá var ekki reynt að flytja þetta annað. Síðan gerðist það að nú í haust var tekin upp þessi kennsla í Framhaldsskóla Vestmannaeyja fyrirvaralítið að því er virðist þrátt fyrir það að í bréfi hafi verið tekið skýrt fram að þessi faggreinakennsla verði aðeins rekin í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Af þessu hafa menn sem þetta mál varðar verulegar áhyggjur, einkum með tilliti til þess hvort það geti haft áhrif á þetta nám þar sem það hefur verið rekið eða muni breyta einhverju um það. Af þessum ástæðum hef ég leyft mér að leggja hér fyrirspurn til hæstv. menntmrh. sem svo hljóðar, með leyfi hæstv. forseta:
    1. Hefur menntmrn. breytt um stefnu varðandi kennslu í faggreinum netagerðar fyrir samningsbundna iðnnema sem ákveðið var í desember 1988, í samráði við hagsmunaaðila, að aðeins yrði í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og það staðfest með bréfi í mars 1994?
    2. Á hvaða forsendum var heimilað að þessi kennsla færi fram í Framhaldsskóla Vestmannaeyja nú í haust?
    3. Var haft samráð við hagsmunaaðila um þessa ákvörðun?
    4. Mun þessi heimild hafa áhrif á kennslu þessara greina við Fjölbrautaskóla Suðurnesja á næstu vorönn?