Niðurfelling virðisaukaskatts af barnafatnaði

22. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 18:01:56 (964)


[18:01]
     Fyrirspyrjandi (Ingi Björn Albertsson) :
    Hæstv. forseti. Nú á þeim tímum sem skuldir heimilanna aukast nánast dag frá degi og eru komnar yfir 100% af tekjum, á þeim tíma sem fátækt hefur tekið sér bólfestu í íslensku þjóðfélagi, á þeim tíma sem skattar eru orðnir veruleg byrði á stórum fjölda fólks, ekki síst hjá barnafólki og almennu launafólki, þá freistast menn til að leita leiða til að létta byrðar og auka kaupmátt hjá þessum hópi fólks. Það er m.a. þess vegna sem ég hef leyft mér að bera fram fsp. á þskj. 117 til fjmrh. um niðurfellingu virðisaukaskatts af barnafatnaði.
    Fyrirspurnirnar, sem eru tvær, hljóða svo:
  ,,1. Telur ráðherra koma til greina að fella niður virðisaukaskatt af barnafatnaði?
    2. Hvert yrði tekjutap ríkissjóðs ef slíkt yrði gert?``
    Ég vil aðeins geta þess að það er þekkt víða erlendis að hafa engan virðisaukaskatt á barnafatnað. Menn þekkja það að héðan fer fólk í stríðum straumum í verslunarferðir til Bretlands og þar er verulega stór hluti af innkaupakörfunni einmitt barnafatnaður. Á sama tíma er barist hatrammlega fyrir því að færa verslunina inn í landið og mundi ég því telja slíka hugmynd ef nokkur kostur er, ef hún er hreinlega ekki of dýr, góðra gjalda verða. Þess vegna hef ég leyft mér að bera þessa fyrirspurn fram.