Málefni dýralækna á Vestfjörðum og afgreiðsla dýralyfja

24. fundur
Miðvikudaginn 02. nóvember 1994, kl. 13:34:34 (1037)


[13:34]
     Pétur Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Það sem mig langar til þess að vekja athygli á og bera fram fyrirspurn um er málefni dýralækna, einkum og sér í lagi á Vestfjörðum þar sem eru þrjú dýralæknishéruð og ekkert þeirra er skipað dýralækni, auk þess sem lyfsölulögin frá því í maí 1994 valda því að mjög erfitt er að fá með fljótum hætti afgreidd lyf fyrir dýr. Ég vil spyrja hæstv. landbrh. hvort fyrirhugað sé í þeim efnum að fá afleysingamann til þess að fara um svæðið til að sinna brýnni þjónustu, en eftir því sem ég best veit er þeirri þjónustu nú þannig háttað að dýralæknar fást til ákveðinna verka sem gefa af sér verulegar tekjur og reyndar eru lögbundin eins og t.d. eftirlit í sláturtíð, hundahreinsun og sprautun í stað baða sem nú er tekin upp fyrir sauðfé. En þetta er í rauninni algerlega óviðunandi ástand að heilt hérað skuli vera svona eða reyndar þrjú héruð, heill landshluti skuli vera svona afskiptur með dýralæknisþjónustu og því spyr ég hæstv. landbrh.:
    1. Hyggst hann beita sér fyrir því að dýralyf verði afgreidd með skjótari hætti en nú er?
    2. Eru fyrirhugaðar einhverjar úrbætur í málefnum þessum fyrir hönd Vestfjarða?