Forfallaþjónusta í sveitum

25. fundur
Fimmtudaginn 03. nóvember 1994, kl. 11:38:07 (1120)


[11:38]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil leggja áherslu á að það var samþykkt á aðalfundi Stéttarsambands bænda að skora á Alþingi og ríkisstjórn að frv. þess efnis að leggja forfallaþjónustuna niður yrði afgreitt á þessu ári fyrir áramót. Það er sá vilji sem þau samtök hafa látið í ljósi og ég er sammála því að okkur beri að verða við því. Mér er ekki kunnugt um og það veit hv. 3. þm. Austurl. betur en ég hvort bændasamtökin hafa hafið vinnu að því að koma öðru skipulagi á í kjölfarið. Það er gengið út frá því að það skipulag verði á ábyrgð bændasamtakanna sjálfra enda er ljóst að það þarf að huga að því hvernig afleysingamálum bænda verði háttað í framtíðinni.
    Hér er sem sagt lagt til að þessi lög verði numin úr gildi vegna þess að komið er í ljós að mikill ágreiningur er um þau og engin samstaða innan bændastéttarinnar og vegna þess að samkvæmt greinargerðinni hefur fjöldi búgreinafélaga, öll nema félag sauðfjárbænda, mér er ekki kunnugt um hvort þeir hafa sagt sig frá forfallaþjónustunni síðar, sagt sig frá henni. Það segir að engin samstaða er um núgildandi fyrirkomulag og þess vegna tel ég einsýnt að verða við áskorun Stéttarsambands bænda.