Jarðalög

25. fundur
Fimmtudaginn 03. nóvember 1994, kl. 15:54:23 (1159)


[15:54]
     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hefði viljað inna hv. þm. Steingrím J. Sigfússon eftir skilningi hans á þeim atriðum sem ég kom inn á í ræðu minni áðan, en það er það að innan réttarsviðs EES-samningsins er jafnrétti milli ríkisborgara EES-landanna. Ég fellst á það með honum og það hefur aldrei verið neitt vafamál, að innan réttarsviðsins er þetta jafnrétti fullkomið að frádregnum fjárfestingarréttinum sem er ekki fullkominn, heldur markast hann af hinum þremur réttarsviðunum. Utan réttarsviðsins gildir hins vegar íslenskur ríkisborgararéttur umfram rétt EES-íbúa og þá er kannski spursmálið í ljósi þessa lagafrv. sem hér hefur verið lagt fram, hvort það á ekki að leggja sig fram um að tryggja að þessi EES-réttur þrengi ekki þennan rétt sem við höfum umfram aðra. Ég tel að það sé mjög mikilsvert að reyna að standa vörð um það að þessi lagasetning sem hér er verið að tala um í dag þrengi ekki ónauðsynlega þennan rétt sem við höfum utan samningsins.