Utandagskrárumræður um skuldastöðu heimilanna og skatt á blaðsölubörn

30. fundur
Miðvikudaginn 09. nóvember 1994, kl. 13:42:51 (1346)


[13:42]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég er komin hingað til að taka undir með hæstv. utanrrh. Hér tel ég að hafi verið ákaflega óþinglega að farið. Utandagskrárumræða hafði verið leyfð og óskað eftir viðveru hæstv. félmrh. Hann er hingað kominn og ég veit ekki annað en hann sé í embætti með fullum stuðningi ríkisstjórnarinnar. Auðvitað er ekkert við því að segja að fella niður umræðu sem áður hafði verið boðuð en það var alger óþarfi að gera grein fyrir ástæðu þess sem ég tel ekki að sé nein stoð fyrir.
    Þetta vil ég að komi fram. Ég held að hv. þingheimur eigi ekki að rýra virðingu sína með því að gera hið háa Alþingi að vettvangi slíkra hluta. Þeir eru of alvarlegir til þess.
    Frú forseti. Ég ætla að leyfa mér vegna ræðu hv. 8. þm. Reykn. að geta þess að ég hef lagt fram fyrirspurn sem ég hygg að sé annaðhvort búið að dreifa eða verði dreift innan tíðar og ég ætla að leyfa mér að upplýsa hv. þm. um hvernig hún hljóðar. Það er fyrirspurn til hæstv. fjmrh. um staðgreiðslu af launum blaðsölubarna:
  ,,1. Hver verður tekjuaukning ríkissjóðs árið 1995 komi til staðgreiðslu af sölulaunum blaðsölubarna?
    2. Hversu mikið vega þær tekjur á móti tapi ríkissjóðs vegna niðurfellingar hátekjuskatts sem ákveðin hefur verið?``
    ( Forseti (SalÞ): Má ég biðja hv. þm. að halda sig við efnið um störf þingsins.)
    Já, ég geri það, hæstv. forseti.
  ,,3. Krefst þessi nýja skattlagning aukins mannafla í skattkerfinu?``
    Ég vil að þetta komi fram, hæstv. forseti, vegna þess að þingheimur vissi ekki að hér yrði umræða um þetta mál og ég vildi því vekja athygli á því að ég mun bera þessar fyrirspurnir fram og láta hæstv. ráðherra vita af því.
    Ég ítreka að ég held að þingmenn verði að gæta sín í umgengni hver við annan og mér er ekki kunnugt um annað en hæstv. félmrh. sé enn þá fullgildur sem slíkur.