Vegaframkvæmdir á Austurlandi

31. fundur
Miðvikudaginn 09. nóvember 1994, kl. 14:52:21 (1361)


[14:52]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég talaði ekki eins og sá sem valdið hefur, ég talaði eins og maður sem hefur skoðun og hv. þm. verður að þola það að hann heyri skoðanir ólíkar sínum. Annars hefur hann ekki mikið að gera á þingi og er þá búinn að sitja hér of lengi og á grundvelli misskilnings ef hann viðurkennir ekki gildi þess að menn skiptist á skoðunum á Alþingi.
    Tillöguflutning af þessu tagi út í loftið, eins og ég kalla svo, er auðveldast að mörgu leyti að leiða hjá sér, yppa öxlum, brosa út í annað og hugsa sem svo: Nú, já, já, það er enn ein af þessum, enn ein svona tillaga, fyrst og fremst til að sýnast, flutt til þess að sýna hana, alls ekki ætlast til þess að hún sé afgreidd, alls ekki. Auðvitað er það alveg augljóst mál að hv. þm. ætlast ekki til að þessi tillaga sé afgreidd, honum er ekki mikil alvara. Ef hv. þm. Egill Jónsson með alla sína þingreynslu ætlar sér að ná þessu máli fram halda menn þá að hann hefði flutt plaggið einn? Halda menn að hann hefði ekki reynt að leita meðflm. úr kjördæminu a.m.k. eða öðrum flokkum? Einmitt sú staðreynd að þingmaður úr fimm þingmanna kjördæmi skuli fara einn fram með hagsmunamál af þessu tagi, ef maður á að taka það alvarlega, segir sína sögu. Það er mikið umburðarlyndi sem aðrir þingmenn Austurlands sýna hv. þm. að taka hann ekki rækilega á beinið fyrir það að vera með svona einkapot af þessu tagi varðandi mikilvæg heildarhagsmunamál í kjördæminu. Þetta vita auðvitað allir og því þá ekki bara að segja það. Plagg af þessu tagi sem einn þingmaður flytur um svona mál er út í loftið meira og minna.
    Það er þannig, skal ég segja ykkur, að hv. fyrrv. þm. Geir Gunnarsson sagði það einu sinni, þótti nokkuð kaldhæðnislegt en má til sanns vegar færa í vissum tilvikum, að ein allra mikilvægasta fúnksjón þingnefnda væri sú, ekki að afgreiða mál heldur einmitt að afgreiða ekki ýmis mál sem þyrfti að svæfa snyrtilega og þá reyndi á lagni og hæfni þeirra sem stýrðu störfum í þingnefndunum að gera það. Ég held að ég verði bara að vísa til þeirra spöku orða. Hér eru af og til að birtast svona tillögur sem fyrst og fremst þurfa á því að halda að einhverjir góðir svæfarar fari um þær mjúkum höndum.