Framtíð Kísiliðjunnar við Mývatn

32. fundur
Fimmtudaginn 10. nóvember 1994, kl. 13:01:56 (1438)


[13:01]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Ástæða þess að ég kveð mér hér hljóðs utan dagskrár um málefni kísilgúrvinnslu úr Mývatni er sú umræða sem farið hefur fram undanfarið um þessi mál. Hún hefur snúist um það hvaða fyrirheit ríkisstjórnin gaf við útgáfu á starfsleyfi verksmiðjunnar í apríl á síðasta ári. Við höfum yfirlýsingu formanns Náttúruverndarráðs þar sem segir að því hafi verið lofað að leyfið væri endanlegt og engin vinnsla ætti sér stað eftir árið 2010. Ef við lítum á það sem kom frá stjórnvöldum þegar þetta mál var til umfjöllunar á þessum tíma þá kemur í ljós að þar stangast hlutir nokkuð á. Í fréttatilkynningu sem er dagsett 6. apríl 1993 frá umhvrh. stendur, með leyfi forseta:
    ,,Ákveðið er að kísilgúrnám á botni Mývatns verði hætt eigi síðar en í lok ársins 2010 og að kísilgúrnám fram til þess tíma verði bundið við afmarkað svæði á Ytriflóa samanber hjálagt yfirlitskort.``
    Þarna segir í fréttatilkynningu ráðuneytisins beinlínis að þetta sé ákveðið. Maður hlýtur að spyrja: Hver ákvað það? Hvar var sú ákvörðun tekin?
    Aftur á móti í fréttatilkynningu iðnrn. sem var gefin út norður í Mývatnssveit deginum seinna stendur, með leyfi forseta:
    ,,Núverandi námaleyfi Kísiliðjunnar hf. rennur út árið 2001 og við útgáfu nýs námuleyfis er það endurnýjað og jafnframt framlengt til ársloka 2010 í því skyni að eyða óvissu um framtíð fyrirtækisins, ekki síst vegna þeirra félagslegu og fjárhagslegu hagsmuna sem í húfi eru fyrir íbúa svæðisins og þjóðfélagsins í heild.`` Í þeirri fréttatilkynningu stendur aftur seinna, með leyfi forseta:
    ,,Þá hefur iðnrh. ákveðið að beita sér fyrir rannsóknum í samvinnu við hagsmunaaðila á nýrri vinnslutækni við kísilgúrnám í vatninu`` --- ég endurtek --- ,,í vatninu og hugsanlegri nýtingu á kísilgúr sem lenti undir hrauni sem rann út í vatnið í Kröflueldum á 18. öld.``
    Þarna finnst mér að gæti verulegs ósamræmis í því sem er útgefið annars vegar af umhvrn. og hins vegar af iðnrn. þó ég vilji taka það skýrt fram að að sjálfsögðu er landinu ekki stjórnað með fréttatilkynningum.
    Nú hefur núv. iðnrh. bent á réttilega í viðtali við DV að ráðherrar gefa ekki slík fyrirheit eins og gert er í fréttatilkynningu umhvrn. Slík ákvörðun sé einungis á færi Alþingis. Ekki veit ég hvort ráðherra er þarna að snupra fyrrv. umhvrh. en alla vega hlýtur skeytinu að vera beint þangað.
    Virðulegur forseti. Í þessu máli er ábyrgð stjórnvalda mikil. Hún er tvíþætt. Annars vegar gagnvart umhverfisvernd og verndun náttúruperla. Hins vegar snýst málið um það að það var í raun opinber stjórnvaldsaðgerð á sínum tíma að ráðast í kísilgúrnám við Mývatn. Stjórnvöld bera því mikla ábyrgð gagnvart þeim einstaklingum sem eiga allt sitt undir þessum rekstri og því sveitarfélagi sem að verulegu leyti hefur mótast af þessum rekstri á síðustu áratugum.
    Þá finnst mér að það verði að taka tillit til þess að hér er um að ræða rekstur sem er umhverfisvænn, þ.e. reksturinn sjálfur. Þarna er verið að vinna náttúrulegt hráefni, náttúrulegt innlent hráefni og til þess er notuð jarðhitaorka af staðnum. Nú er ég bara að tala um reksturinn sem slíkan, ekki hvaða afleiðingar hann gæti hugsanlega haft að öðru leyti. Það væri því að mínu mati hrapalleg skammsýni ef ákvarðanir eða ákvarðanaleysi dagsins í dag yrði þess valdandi að það yrði lokað öllu fyrir frekari vinnslu áður en það væri fullkannað hvort hægt er að finna vinnsluaðferð til þess að tryggja á þann hátt að ekki skaði umhverfið, hráefnisvinnslu eftir að vinnslu hættir í Ytriflóa.
    Virðulegi forseti. Vinnubrögð í þessu máli eru skólabókardæmi fyrir starfshætti þessarar ríkisstjórnar. Fyrst koma yfirlýsingar sem ganga út og suður. Það eru settir tveir ráðherrar í málið og þeir virðast helst talast við í gegnum fjölmiðla. Stundum finnst manni að frekar sé verið að leita að skammtímavinsældum en að framtíðarlausn. En eins og nú er komið þá er veruleg hætta á því að það hvernig ríkisstjórnin hefur haldið á málinu verði þess valdandi að vinnslu ljúki ekki 2010 eins og hefur verið rætt um heldur 1996.
    Virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Ég vil spyrja hæstv. iðnrh. að því hvort útgáfa námuleyfis á síðasta ári hafi byggst á fyrirheiti um að vinnslu yrði endanlega hætt árið 2010 og einnig hvað hafi verið unnið í rannsóknum á nýrri vinnslutækni í vatninu eins og fyrirheit voru gefin um þegar leyfi var gefið út. (Forseti hringir.) Virðulegi forseti. Ég er að ljúka máli mínu. Ég vil að lokum gera þá kröfu til ríkisstjórnar að málið verði látið koma fyrir Alþingi þannig að því gefist kostur á að taka á málinu og eyða þeirri óvissu sem vinnubrögð ríkisstjórnarinnar hafa skapað.