Framtíð Kísiliðjunnar við Mývatn

32. fundur
Fimmtudaginn 10. nóvember 1994, kl. 13:07:58 (1439)


[13:07]
     Iðnaðarráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Framtíð verksmiðjunnar við Mývatn hefur lengi verið í mikilli óvissu eða allt frá því að fyrsta vinnsluleyfi hennar rann út 12. ágúst 1986. En allt frá þeim tíma hafði námaleyfið verið bundið við takmarkað svæði í Ytriflóa og í bréfi dags. 28. mars 1992 til iðnrn. frá þáverandi framkvæmdastjóra kom fram að það svæði dygði einungis til þriggja og hálfs árs framleiðslu verksmiðjunnar eða til miðs sumars 1995. Það var því ljóst að það var mikilvægt að eyða þessari óvissu sem þá var og framtíð verksmiðjunnar var ekki tryggð lengur en til ársins 1995. Það var hrint af stað rannsóknum til grundvallar frekari ákvörðunum. Þær voru rækilega kynntar m.a. með fundahrinu sem hófst í ríkisstjórninni föstudaginn 26. mars. Sama dag voru þær kynntar á fundum með Náttúruverndarráði og stjórn Kísiliðjunnar. Mánudaginn 29. mars voru þær kynntar á fundi með öllum þingmönnum kjördæmisins. Hinn 30. mars voru niðurstöðurnar kynntar á fimm fundum í Mývatnssveit og á Húsavík. Það kom fram í fréttatilkynningu sem gefin var út þennan dag að frekari námuvinnsla í Ytriflóa mundi ekki hafa teljandi áhrif á Syðriflóa, a.m.k. ekki hvað varðar strauma og setflutninga en að um frekari námavinnslumöguleika fyrir utan Ytriflóasvæðið væri ekki að ræða samkvæmt niðurstöðum þessarar rannsóknar.
    Um þetta efni átti þáv. iðnrh. m.a. fund með stjórn og framkvæmdastjóra Kísiliðjunnar 26. mars. Þar sagðist þáv. iðnrh. m.a. vonast til að unnt yrði að gefa verksmiðjunni leyfi til 12--15 ára. Hann sagðist vonast til þess að geta gefið leyfið út með gildistíma fram undir 2010 og lagði áherslu á að fyrirtækið yrði að nota þann tíma til að finna ný not fyrir verksmiðjuna. Þetta var mjög útþrykkilega fram tekið í viðræðum við stjórn verksmiðjunnar á þessum tíma og í bréfi Kísiliðjunnar til iðnrn. dags. 21. mars 1993 segir orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Vaknað hafa ýmsar hugmyndir innan Kísiliðjunnar hf. með hvaða hætti tryggja mætti Kísiliðjunni hf. námaleyfi til 15--17 ára eða allt til ársins 2010.``
    Þannig að allar frásagnir um að þarna hafi verið komið aftan að starfsmönnum, þingmönnum eða öðrum eru úr lausu lofti gripnar. Fyrrv. ráðherra gerði mjög rækilega grein fyrir þessu máli í viðræðum við alla þessa aðila.
    Það er spurt hvaða einkasamkomulag hafi verið gert við Náttúruverndarráð. Það hefur ekkert einkasamkomulag verið gert við Náttúruverndarráð. Hins vegar liggur það fyrir að samkvæmt 3. gr. laga nr. 36/1974 þarf leyfi Náttúruverndarráðs fyrir hvers konar jarðraski og framkvæmdum af því tagi sem þarna stóðu til, með öðrum orðum áður heldur en námaleyfi yrði gefið út varð að leita álits Náttúruverndarráðs og það yrði um það að fjalla. Þess vegna voru haldnir fundir með Náttúruverndarráði og forstöðumönnum rannsóknanna fyrir 6. apríl 1993. Fundurinn með formönnum Náttúruverndarráðs og rannsóknastöðvarinnar var haldinn síðdegis mánudaginn 5. apríl og þar var gengið frá samkomulagi um það að Náttúruverndarráð mundi veita umrætt námaleyfi miðað við það að vinnsluleyfið mundi gilda til ársins 2010. Um þetta námaleyfi urðu síðan mikil átök á fundi Náttúruverndarráðs sem lyktaði m.a. með því að einn af Náttúruverndarráðsmönnum sagði af sér en lyktirnir urðu þær, eins og ég sagði áðan, að Náttúruverndarráð heimilaði í bréfi að framangreint námaleyfi yrði veitt og á þeirri forsendu veitti hæstv. þáv. umhvrh. námaleyfið og á þeirri forsendu var vinnsluleyfið til verksmiðjunnar gefið út miðað við árið 2010.
    Þetta mál var margsinnis kynnt í ríkisstjórninni. Það var kynnt fyrst 26. mars þegar niðurstöður rannsóknanefndarinnar voru kynntar. Drög að námaleyfi voru kynnt í ríkisstjórninni þriðjudaginn 6. apríl og þar kom fram í minnisblaði iðnrh. að námaleyfið yrði takmarkað við kísilgúrnám í Ytriflóa og það kom fram í minnisblaðinu orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Samkomulag er um málið við umhverfisráðuneytið. Voru drögin byggð á því að ekki sé rétt að taka áhættu af því að lífríki vatnsins kynni að bíða tjón af kísilgúrnámi á Syðriflóa. Námasvæðið á Ytriflóa er hins vegar stækkað en með því er talið að kísilgúrnám úr vatninu geti haldið áfram fram á fyrsta áratug næstu aldar eða allt til ársloka 2010 eftir því hver hráefnisþörf verksmiðjunnar verður á tímabilinu.``
    Í umræðum í ríkisstjórninni gaf hæstv. iðnrh. samgrh. heimild sína til þess að fulltrúa samgrn. yrði bætt í stjórn sérstaks sjóðs sem stofnaður var til að vinna að eflingu atvinnulífs í sveitinni og síðan er bókað í ríkisstjórninni: ,,Málið rætt og samsinnt.`` (Forseti hringir.)
    Í framhaldi af því gerði síðan hæstv. umhvrh. drög að frv. eða lagði fram frv. í ríkisstjórninni til að staðfesta þetta samkomulag. Það frv. hefur ekki fengist afgreitt en það er alveg ljóst að Alþingi Íslendinga hefur síðasta orðið í málinu, Alþingi Íslendinga getur tekið þá ákvörðun sem Alþingi Íslendinga kýs. (Forseti hringir.) En námaleyfið sem veitt var og umsögn Náttúruverndarráðs var á grundvelli þess samkomulags sem allir aðilar vissu um, allt frá sveitarstjórnarmönnum í Mývatnssveit og í Norður-Þingeyjarsýslu til ríkisstjórnar (Forseti hringir.) að miðað verði við að vinnsluleyfi verksmiðjunnar stæði allt til ársins 2010 og sérstakur atbeini Alþingis þyrfti að koma til bæði til þess að staðfesta það samkomulag og til að breyta því.