Framtíð Kísiliðjunnar við Mývatn

32. fundur
Fimmtudaginn 10. nóvember 1994, kl. 13:26:36 (1445)


[13:26]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Það er ekki rétt, og sama hversu margir endurtaka það, að það var ekki nein allsherjarlausn um að festa í lög að kísilgúrtaka við Mývatn yrði bönnuð árið 2010. Það var eftirtektarvert að heyra fulltrúa Kvennalistans, hv. þm. frú Kristínu Einarsdóttur lýsa því yfir hér áðan að það væri mjög alvarlegt að fólk í Mývatnssveit vissi ekki um framtíð sína en segja það í hinu orðinu að það væri rétt að steypa þeirri atvinnu undan fólkinu sem það þó hefur sem er við Kísiliðjuna sem er grundvallaratvinnugrein þarna og sú atvinnugrein á þessum slóðum sem er allt árið um kring og er staðfestan í byggðarlaginu. (Gripið fram í.)
    Ummæli hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar, af því hann grípur fram í, komu mér ekki á óvart og heldur ekki það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði.
    Varðandi það bréf sem hæstv. umhvrh. vitnaði til áðan og sagði að stjórn Kísiliðjunnar væri sátt við þessa lausn, þá er verið að tala um að hún sé sátt við að námaleyfið sé takmarkað til ársins 2010. En á hinn bóginn segir um það lagafrv. sem átti að leggja fram, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þess vegna getum við ekki með neinu móti fallist á það orðalag frv. að kísilgúrtaka á botni Mývatns sé óheimiluð. Þó er heimilt að nema kísilgúr af botni Ytriflóa af tilteknum svæðum til ársins 2010 samkvæmt ákvæðum námaleyfis, dags. 7. apríl 1993.``
    Stjórnin lýsir yfir með öðrum orðum því að hún er algerlega andvíg frv. eins og það er orðað. Á hinn bóginn var það eftirtektarvert að því var flaggað framan í Mývetninga að það væri rétt að sækja kísilgúrinn undir eldhraunið. Í staðinn fyrir að fara í Syðriflóa væri rétt að sækja kísilgúrinn undir eldhraunið eftir 2010. Það var sú lausn (Forseti hringir.) sem mér skildist á fyrrv. hæstv. iðnrh. að væri Náttúrverndarráði mjög til geðs enda munum við eftir þeim látum sem voru á sínum tíma þegar vegurinn var lagður yfir hið sama hraun.