Framtíð Kísiliðjunnar við Mývatn

32. fundur
Fimmtudaginn 10. nóvember 1994, kl. 13:34:05 (1448)


[13:34]
     Iðnaðarráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég minni á að þann 26. mars voru kynntar niðurstöður rannsókna í ríkisstjórninni sem leiða ótvírætt í ljós hvaða hættur eru á að flytja námavinnslusvæðið til úr Ytriflóa þar sem námavinnslan hafði staðið yfir. Þann 5. apríl er gert samkomulag um að Náttúruverndarráð fallist á að framlengja námaleyfi sem ella hefði dottið úr gildi árið 1995. Það samkomulag er kynnt á fundi ríkisstjórnarinnar þann 6. apríl þar sem kemur m.a. fram að námasvæðið á Ytriflóa sé stækkað en með því er talið að kísilgúrnám úr vatninu geti haldið áfram fram á fyrsta áratug næstu aldar eða allt til ársloka 2010.
    Það kemur einnig fram í framhaldi af kynningunni þá lagði umhvrh. fram og kynnti í tengslum við útgáfu námaleyfis fyrir Kísiliðjuna hf. frv. til laga um breytingu á lögum um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu til að staðfesta samkomulagið og minnisblað fylgir því frv. þar sem kemur glögglega í ljós að ráðherrarnir tveir sem stjórnskipulega fara með þetta mál eru sammála um alla þætti afgreiðslu þess og sammála um það að málið hafi verið kynnt fyrir ríkisstjórn alveg frá upphafi og þeir eru sammála um að leggja til að umrætt frv. verði flutt sem stjfrv. Þannig að þeir ráðherrar sem stóðu að samkomulaginu hafa verið sjálfum sér samkvæmir frá fyrstu til síðustu stundar. Málin ganga hins vegar einfaldlega þannig fyrir sig, eins og hv. þm. vita í ríkisstjórn, að mál er ekki flutt sem stjfrv. nema allir ráðherrar séu samþykkir því. Það hefur ekki farið neitt leynt að hæstv. samgöngu- og landbrh. hefur ekki verið samþykkur þessu frv. Því hefur það ekki fengist flutt sem stjfrv. þó svo að ráðherrarnir tveir sem málið heyrir stjórnskipulega undir séu báðir sammála. Þetta vildi ég ítreka sem kom fram í máli mínu hér áðan vegna þeirra ummæla sem hér hafa fallið.
[Fundarhlé. --- 13:36]