Aðgerðir til að draga úr kynjamisrétti

33. fundur
Þriðjudaginn 15. nóvember 1994, kl. 14:15:00 (1488)


[14:15]
     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Í þessari þáltill. sem allar þingkonur Kvennalistans flytja er hreyft mjög mikilvægu máli. Ég held kannski að Íslendingar sem og aðrar Norðurlandaþjóðir geri sér betur grein fyrir því í dag en nokkru sinni fyrr hversu mikilvægt hlutverk það er sem foreldrar þurfa að inna af hendi og að alltaf verður erfiðara að inna þetta hlutverk af hendi vegna þess að inn á hvert heimili streymir alls kyns misgott efni sem hefur niðurbrjótandi áhrif á þau börn sem fólkið er að reyna að ala upp.
    Á sama tíma verða íslenskir foreldrar að vinna eins lengi og þeim er unnt dag hvern til þess að hafa í sig og á. Vandamálið vex því úr tveimur áttum, bæði vegna þess laka fjárhagsástands sem er á landinu og vegna þess flóðs af illu efni sem börnum okkar er boðið í dag.
    Ég held að það besta sem hægt væri að gera fyrir foreldra og þá ekki síst mæður sé að stytta vinnuvikuna en draga samt ekki frá kaupi þannig að foreldrarnir ættu möguleika á því að eyða fleiri tímum með börnunum sínum. Stytting vinnuviku og lagasetning þess efnis að foreldrar, sem eiga börn innan ákveðins aldurs, þyrftu ekki að vinna eins langa vinnuviku eins og aðrir held ég að væri til hagsbóta fyrir okkur öll þegar til lengri tíma er litið. Auðvitað vitum við að enginn vinnuveitandi vildi ráða manneskju til að vinna fyrir sig á fullu kaupi fyrir 36 stundir. Þess vegna þyrfti að koma af hálfu ríkisvaldsins einhver ívilnun á móti sem sjálfsagt yrði skattaleg eða eitthvað því um líkt. Ég held að það besta sem við gætum gert í dag væri að stytta vinnuviku þeirra sem eru að fást við að koma upp börnum og gæta þess samt að laun lækki ekki.
    Víst er meiri hluti kvenna láglaunahópur. Það sem þarf að gera er að hækka grunnlaun allra þeirra sem lægstu launin hafa. Það á bæði við um karla og konur. En hækkun launa er stórkostlega mikilvægt fyrir hina íslensku þjóð sem að hálfu er á barmi gjaldþrots, þar á ég við heimilin. Alveg óháð því hvernig samningar verða á vinnumarkaðinum væri hægt að setja í lög að vinnuvika foreldra, sem ættu börn innan ákveðins aldurs, væri styttri og vinnuveitendur fengju það bætt með öðrum hætti. Þetta væri sameiginlegt framlag samfélagsins til uppeldis þessara barna.