Vernd Breiðafjarðar

35. fundur
Fimmtudaginn 17. nóvember 1994, kl. 14:32:34 (1603)


[14:32]
     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég tel rétt að minna ráðherrann á það að frv. fjallar um að vernda landsvæði miðað við ástandið eins og það er, frysta það og torvelda mönnum að ná fram byggðaþróun til betri vegar ef það tekst og þá munu þessi lög verða girðing fyrir það því að þau munu nánast loka fyrir það að fólk geti sest þar að með varanlega búsetu og hafið þar atvinnustarfsemi. Ég tel að lögin eigi ekki fyrst og fremst að beinast að því að vernda land sem fáir búa á. Ég tel að viðfangsefni okkar eigi að vera að fá fólk til að búa þar þar sem fólk ekki býr nú, reyna að snúa þróuninni við. Mér er bara hulin ráðgáta, virðulegi forseti, að sjá í þessu frv. eitthvað sem er virkilega til gagns fyrir fólk sem býr á þessu svæði. Það er það sem mér finnst að ráðherrann hafi ekki getað útskýrt fyrir mér eða öðrum í þingsalnum en ég bendi á það að ákvæði til að vernda landið, fornminjar, landslag og annað slíkt, menn hafa úrræði í dag til þess að vernda þetta. Og ég spyr: Hvers vegna þurfa menn þessi lög til viðbótar?