Útflutningur hrossa

35. fundur
Fimmtudaginn 17. nóvember 1994, kl. 16:26:52 (1625)


[16:26]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil ekki taka undir þau ummæli sem hv. þm. hafði hér í garð utanrrh. Ég vil aðeins ítreka það sem ég hef áður sagt í þessum stól að landbrn. fer auðvitað með málefni landbúnaðarins og samninganefndarmönnum og sendiherrum Íslands á erlendum vettvangi ber að fylgja eftir þeirri stefnu sem ríkisstjórnin hefur markað og fagráðherrann í þessu efni. Það er því öldungis ljóst að það liggur fyrir að utanrrn. hefur verið falið að vinna að því að ná þessum málum fram eftir þeim ráðum sem fyrir hendi eru og við erum ekki einir Íslendingar í því. Það eru sams konar mál komin upp t.d. í sambandi við hagsmuni okkar á sölu dilkakjöts og Norðmenn velta því líka fyrir sér nú hver staða þeirra yrði t.d. í sambandi við innflutning eða viðskipti við Svía um sölu á síld og fleira til Svíþjóðar ef Noregur kysi að standa utan við svo að við erum ekki að tala hér einangrað um hross. Við erum að tala almennt um það gildi sem EFTA-samningarnir höfðu og við erum auðvitað að tala um þann rétt sem við höfum átt í milliríkjasamningum milli landanna. Ég hef enga ástæðu til að ætla annað en þessum málum verði vel tekið, enga ástæðu til að ætla annað, þegar á það hefur reynt þegar þessi mál hafa verið skýrð og mun ef þörf krefur hafa samband á nýjan leik við erlenda kollega mína um þau efni.