Reglur LÍN um nám foreldra fatlaðra barna

39. fundur
Mánudaginn 21. nóvember 1994, kl. 16:02:31 (1734)


[16:02]
     Fyrirspyrjandi (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Fyrirspurn mín er til hæstv. menntmrh. sem iðulega hefur fengið að svara fyrir stefnu og reglur Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Að þessu sinni varðar spurningin nám foreldra fatlaðra barna.
    Fatlaðir einstaklingar sem stunda lánshæft nám fá sérstakt tillit tekið til þess að fötlun þeirra getur valdið því að námstíminn sé lengri en ella væri. Þetta er eðlilegt og getur skipt sköpum fyrir suma þessa einstaklinga um það hvort þeir geta stundað sitt nám.
    Víða í samfélaginu má sjá þess merki að viðurkennt sé að foreldrar fatlaðra barna þurfi að fá aukið álag í starfi sínu og daglegum verkum viðurkennt. M.a. eru í sumum tilvikum greiddar umönnunarbætur. Þeir fá í sumum tilvikum viðurkenndan aukinn stuðning svo sem liðveislu vegna barnanna og stuðningsfjölskyldur sem létta undir með þeim þó það sé því miður ekki í eins stórum stíl og oft er þörf á. Þetta merkir að samfélagið gerir sér grein fyrir því viðbótarálagi sem hvílir á foreldrum fatlaðra barna. Það skýtur því skökku við ef það er staðreynd að Lánasjóður íslenskra námsmanna gefi ekki foreldrum fatlaðra barna kost á lengdum námstíma, t.d. í samræmi við þá lengingu námstíma sem fatlaðir námsmenn fá.
    Ástæðan fyrir fyrirspurn minni er dæmi um móður fatlaðs barns sem nú er í háskólanámi en verður að hverfa úr því námi ef þessi viðurkenning fæst ekki. Ástæðan er einföld: Umönnun barns hennar, sem er með Down's syndrome, er einfaldlega of mikið álag með námi til þess að hún geti haldið fullum námshraða. Henni sækist þó námið jafnt og örugglega og ætti að mínu mati ekki að þurfa að gjalda aðstæðna sinna á þennan hátt. Það er von mín að hæstv. menntmrh. beiti sér fyrir því að þessum málum verði kippt í liðinn eða láti vita við þessa umræðu ef þetta tiltekna dæmi er undantekning. Það verður þá væntanlega leiðrétt til samræmis við önnur dæmi.
    Fyrirspurn mín til hæstv. ráðherra er svohljóðandi:
    ,,Hvaða reglur gilda hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna um heimildir foreldra fatlaðra barna til lengingar námstíma án þess að lánsréttur skerðist?
    Njóta námsmenn, sem eiga fötluð börn, sömu réttinda til lengds námstíma og fatlaðir námsmenn? Ef svo er ekki, hyggst ráðherra beita sér fyrir því að þessar reglur verði samræmdar?``