Reglur LÍN um nám foreldra fatlaðra barna

39. fundur
Mánudaginn 21. nóvember 1994, kl. 16:10:27 (1737)

[16:10]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Herra forseti. Hv. fyrirspyrjanda þótti ekki ljóst af svari mínu hvort umsækjandi mundi fá úrlausn sinna mála. Ég upplýsti hér samkvæmt því sem ég hef frá lánasjóðnum að það hefði ævinlega verið tekið tillit til veikinda eða fötlunar barna í fjölskyldu námsmanna að uppfylltum tilteknum skilyrðum, þ.e. að vottorð frá lækni fylgi umsókn. Ég nefndi líka að í úthlutunarreglum fyrir það skólaár sem er nýlega hafið gilda nýjar reglur og mér sýnist á þeim að einmitt sé verið að tryggja frekar en verið hefur að foreldrar fatlaðra námsmanna fái úrlausn sinna mála. Ég treysti því satt að segja að þessar reglur gefi aukið svigrúm.