Lán til náms í iðnhönnun

39. fundur
Mánudaginn 21. nóvember 1994, kl. 16:12:05 (1738)


[16:12]
     Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Um nokkurt skeið hefur verið í gangi við Iðnskólann í Hafnarfirði námsbraut í iðnhönnun, sem hafði verið reyndar í undirbúningi um nokkurt skeið. Ég hygg að hún sé núna starfrækt sitt annað ár. Hér er um að ræða nýjung sem er satt að segja merkileg í íslensku framhaldsskólastarfi. Má segja að sérstök ástæða sé til að hlúa að þessum nýja vaxtarsprota í íslenska framhaldsskólakerfinu. Þetta er býsna óvenjulegt nám í iðnskóla að því leytinu til að ekki er gert ráð fyrir að fólk ljúki sveinsprófi heldur hefur verið gert ráð fyrir að fólk lyki námi með framhaldsskólapróf í iðnhönnun á tiltekinn hátt. Mér er kunnugt um að menntmrn. hefur um nokkurt skeið haft til athugunar þá námsskrá sem byggt hefur verið á í Iðnskólanum í Hafnarfirði á þessari braut. Ég vil láta það koma hér fram að ég tel nauðsynlegt að ráðuneytið vandi vel þá yfirferð og að námið sé gott, góð kennsla eigi sér þarna stað, faglega traust og standist samanburð við það sem gerist í öðrum löndum á þessu sviði að því er varðar iðnhönnun.
    Hitt er líka mikilvægt, hæstv. forseti, að ráðuneytið dragi ekki úr hömlu að komast að niðurstöðu í þessum efnum, ekki síst vegna þess að þarna er um að ræða marga tugi ungra einstaklinga sem stunda nám í skólanum á þessari braut. Þarna er um að ræða fjölda kennara sem hafa um skeið búið við talsverða óvissu að því er þetta nám varðar og framhald þess.
    Margir tugir nemenda eru í þessu námi og þeirra vandi er ekki síst sá núna í seinni tíð að þeir hafa ekki fengið námslán. Þó svo að nemendur á hliðstæðum brautum í framhaldsskólum, þ.e. í iðnskólum og fjölbrautarskólum, hafi fengið námslán þá hefur þetta fólk ekki fengið námslán sem er afar bagalegt fyrir það. Hér er oft um að ræða fólk með heimili, fjölskyldur og þyngri framfærslu af þeim ástæðum. Af þeim sökum, hæstv. forseti, hef ég leyft mér að bera fram við hæstv. menntmrh. eftirfarandi fyrirspurn:
    ,,Hvenær verður nám í iðnhönnun lánshæft í Lánasjóði íslenskra námsmanna?``