Lán til náms í iðnhönnun

39. fundur
Mánudaginn 21. nóvember 1994, kl. 16:14:54 (1739)


[16:14]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Herra forseti. Eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda þá hefur Iðnskólinn í Hafnarfirði boðið fram nám í iðnhönnun, raunar frá árinu 1990 þegar leyfið var veitt, til að veita tilteknum hópi nemenda úrlausn vegna þess að þeir höfðu ekki komist í það nám sem þeir sóttu um. Síðan hefur skólinn boðið fram þetta nám raunar án þess að um formlega og samþykkta námsbraut hafi verið að ræða.
    Námið hefur líkað vel og virðist sem nemendur hafi fundið þarna viðfangsefni við sitt hæfi án þess þó að námið hafi veitt tiltekin réttindi eða skilgreindan undirbúning til áframhaldandi náms.
    Samkvæmt upplýsingum frá Iðnskólanum í Hafnarfirði munu þó dæmi um að nemendur hafi farið í nám á skyldu sviði erlendis og þá notið þessa undirbúnings við inntöku í viðkomandi námsstofnun.
    Sl. sumar lagði skólinn síðan fram uppkast að formlegri námsbraut í iðnhönnun og fór fram á samþykkt hennar í ráðuneytinu. Um var að ræða tillögu að fjögurra ára braut en þó var ekki miðað við að henni lyki með stúdentsprófi enda um sérhæft nám að ræða. Ráðuneytið gerði athugasemdir við þessar tillögur og voru þær ræddar ítarlega við forsvarsmenn skólans. Skólinn hefur skilað inn endurskoðuðum tillögum og eru þær nú til umfjöllunar í ráðuneytinu. Mun verða fjallað um þær í samræmi við þá stefnu sem nefnd um mótun menntastefnu hefur lagt fram varðandi nýjar námsbrautir.
    Stjórn Lánasjóðs ísl. námsmanna mun hafa fjallað um erindi frá Iðnskólanum í Hafnarfirði um að nám í iðnhönnun verði metið lánshæft. Þeirri málaleitan mun hafa verið hafnað með þeim rökum að hér sé ekki um löggilta iðngrein að ræða og að námið veiti ekki starfsréttindi auk þess sem ekki sé um samþykkta námsbraut að ræða.
    Hér er sem sagt um að ræða nám í mótun, skipulag námsins er ekki frágengið og það ekki endanlega staðfest af ráðuneytinu. Það er raunveruleg ástæða fyrir því að Lánasjóður ísl. námsmanna hefur ekki talið þetta nám lánshæft.
    Ég geri mér vonir um að úr þessum málum megi greiðast sem allra fyrst.