Lán til náms í iðnhönnun

39. fundur
Mánudaginn 21. nóvember 1994, kl. 16:19:30 (1741)


[16:19]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Herra forseti. Ég skil ekki óánægju hv. fyrirspyrjanda við spurningum sem hann bar alls ekki fram. Þær eru hins vegar komnar núna, aðrar spurningar til mín en eru á þskj. og það er varla hægt að ætlast til að ég svari spurningum sem ég veit ekki hverjar eru. En ég hef heyrt þessar sem núna eru komnar. Ég tel mig hafa svarað spurningu hv. þm. eins og hún er á þskj. 157: ,,Hvenær verður nám í iðnhönnun lánshæft í Lánasjóði ísl. námsmanna?`` Ég sagði að málið væri til athugunar í ráðuneytinu. Ég gat ekki svarað því hvenær námið yrði lánshæft.
    Ég gerði einnig grein fyrir því hvers vegna stjórn lánasjóðsins hefði ekki talið þetta nám lánshæft. Það er vegna þess að ekki er um löggilta iðngrein að ræða og veitir ekki nein sérstök starfsréttindi. Stjórn lánasjóðsins ber það fyrir sig. Þetta er í athugun í ráðuneytinu og ég lét í ljós þá von áðan og ég get ítrekað að það greiðist úr þessum málum sem fyrst. Ég þori ekki að nefna neinn sérstakan dag en málið er til meðferðar þessa dagana í ráðuneytinu.
    Hvort eitthvað í lögum lánasjóðsins hindri það að lán sé veitt þori ég ekki að fullyrða um án þess að athuga það frekar en lánasjóðsstjórnin hefur rökstutt sínar afgreiðslur með þeim hætti sem ég hef greint frá.