Greiðsluaðlögun húsnæðislána

40. fundur
Þriðjudaginn 22. nóvember 1994, kl. 15:18:06 (1822)


[15:18]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég vil fagna þessari tillögu og ekki síður þeim undirtektum sem hún hefur fengið hér hjá talsmönnum annarra flokka og reyndar einnig hjá hæstv. félmrh. Það veitir svo sannarlega ekki af að ræða stöðuna í húsnæðismálum þjóðarinnar. Hún er vægast sagt hrikaleg og er sennilega leitun að því að sá málaflokkur sem slíkur hafi verið í meiri upplausn en einmitt núna. Á ég þá bæði við að starfræksla sjálfs húsnæðislánakerfisins er í molum og byggingarsjóðirnir ná ekki að fjármagna sig með þeim hætti sem ætlunin hefur verið upp á síðkastið og eru algerlega upp á það komnir að ríkissjóður endurláni þeim fé. En hin hliðin á málinu er þó kannski enn þá hrikalegri sem snýr að viðskiptamönnum húsnæðislánakerfisins, þ.e. húsbyggjendum og kaupendum á undanförnum árum sem eru nú í gífurlegum erfiðleikum.
    Staðreyndin er sú að þessi mál eru meira og minna öll í molum. Nýbyggingar hafa dregist mjög saman og þar af leiðandi er endurnýjun í húsnæði landsmanna ekki eins og hún þyrfti að vera. Það hlýtur að kalla á vaxandi erfiðleika, hækkandi húsaleigu og annað því um líkt að nú er alls ekki byggt nægjanlega mikið húsnæði til þess að endurnýja og bæta við húsnæði fyrir nýja árganga.
    Þetta er eitt en á því er hægt að ráða bót. Hitt er öllu verra sem gerst hefur vegna viðskipta þúsunda fjölskyldna við þetta kerfi á undanförnum árum. Þar er gífurlegur vandi að hlaðast upp, greiðsluerfiðleikar, sem hér hefur verið farið yfir og er óþarft að fjölyrða um. En í hnotskurn er staða mála þannig í húsbréfakerfinu að fjórða hvert lán þar er í vanskilum og þó teljast það ekki vanskil fyrr en komið er 90 daga fram yfir eindaga þannig að ljóst er að til viðbótar þessum viðurkenndu langtímavanskilum er umtalsverður hópur fólks sem er eitthvað orðinn á eftir með sínar afborganir. Yfir 60% allra greiðsluerfiðleika eru í vanskilum.
    Það versta við þetta mál, hæstv. forseti, er að í þessu máli hefur verið komið aftan að fólki. Í raun og veru er með einhliða stjórnvaldsaðgerðum á síðustu árum búið að búa til misgengishóp alveg sambærilegan við þann sem verst varð úti á árunum 1983--1985. Þá var launavísitala tekin úr sambandi en lánskjaravísitalan æddi áfram í 30--40% verðbólgu og til varð hið illræmda misgengi þeirra ára. En á síðustu árum hefur verið búið til sambærilegt misgengi í húsbréfakerfinu. Það gerist með því, hæstv. forseti, og er enn þá alvarlegra en ella, að menn fara í hið fræga greiðslumat, þeir leggja fram upplýsingar um laun sín og fjárhagslega stöðu og það er reiknað út og metið hverju þeir séu borgunarmenn fyrir. Í krafti þess taka menn ákvarðanir um sínar fjárfestingar og taka húsbréfalán. En hvað er svo gert? Svo er fótunum kippt undan þessu fólki, greiðslumatið eyðilagt með einhliða röskun stjórnvalda á þeim grundvelli sem matið byggði á, með því að hækka skatta á þessu fólki, með því að lækka vaxtabætur, lækka hinn opinbera stuðning við húsbyggjendurna sem auðvitað var reiknað með í greiðslumatinu. Síðan koma til sögunnar afföllin sem hæstv. fyrrv. félmrh. sór og sárt við lagði ásamt með sínum sérfræðingum þegar verið var að taka upp húsbréfakerfið að mundi aldrei verða. Staðreyndin er samt sú að afföllin fóru langt yfir 20% á löngu tímabili. Það hefur leitt til þess að þúsundir einstaklinga og fjölskyldna skulda upp í allt að fjórðungi meira í húsbréfakerfinu en þeir nokkurn tímann fengu. Ég veit dæmi um menn sem tóku lán og skulda 4 millj. í húsbréfum, en fengu að teknu tilliti til affalla og lántökukostnaðar aldrei nema 3 millj. Þegar það bætist svo við að grundvellinum er kippt undan mönnum með því að forsendunum er breytt einhliða af hálfu stjórnvalda þá er ekki nema von að illa fari.
    Ég fullyrði það, hæstv. forseti, að siðferðilega séð er það misgengi sem búið er að búa til í húsbréfakerfinu í raun ekki hótinu skárra en það sem búið var til á árunum 1983--1985. Og skömm þeirra sem að því hafa staið mun verða lengi uppi. Að koma þannig aftan að fólki. Við skulum viðurkenna að auðvitað er ekki við húsbréfakerfið að sakast sem slíkt þó atvinna dragist saman í landinu og tekjur falli en sá hluti þessa vanda sem er vegna einhliða stjórnvaldsaðgerða á undanförnum árum er siðleysi, algert siðleysi. Það er fleira sem varðar við siðferði í íslenskum stjórnmálum, hæstv. forseti, en einstakar afglapalegar embættisathafnir hæstv. fyrrv. félmrh., þess sem var næstur á undan þeim sem nú situr. Það er nú einu sinni þannig. Ég segi alveg eins og er að þegar farið er yfir þessa stöðu og ástand mála þá er sorglegt að horfa upp á það að í annað skiptið á tiltölulega stuttu tímabili í Íslandssögunni skuli þúsundir saklauss fólks vera komnar í stöðu af þessu tagi. Vegna þess að það er komið aftan að þessu fólki. Forsendunum er raskað sem það tók sínar ákvarðanir á og réðist í sínar húsbyggingar eða íbúðarkaup. Þannig má ekki standa

að stjórnvaldsathöfnum og fara með framkvæmdarvaldið á Íslandi.
    Þennan vanda verður að takast á við og það verður að gera það strax áður en meiri erfiðleikar og sárindi og hörmungar hljótast af en þegar eru orðnar og koma m.a. fram í upplýsingum um fjölgun nauðungaruppboða og öðru því um líku.
    Við alþýðubandalagsmenn teljum að það hljóti að verða eitt af forgangsverkefnum nýrrar ríkisstjórnar að glíma við þennan vanda í húsnæðismálunum. Næst á eftir atvinnuleysinu verður að takast á við þetta stóra og mikla vandamál af mikilli alvöru. Það þarf væntanlega ekki að rökstyðja að það er fokið í flest skjól fyrir fólki þegar svo er komið að það ræður ekki einu sinni við að borga þær skuldbindingar sem tryggja því þak yfir höfuðið. Ætli menn séu þá ekki búnir að skera niður og spara flesta aðra hluti áður en þeir taka áhættu af því að húsnæðið verði boðið upp ofan af þeim? En þannig er staðan orðin að þúsundir fjölskyldna fá yfir sig uppboðshótanirnar mánuðum oftar. Mönnum tekst kannski að bjarga sér frá mánuði til mánaðar með skammtímalántökum og öðru slíku en það er skammgóður vermir eins og við vitum, því miður. Hin hrikalega skuldaaukning heimilanna segir sína sögu um þennan vanda. Vegna þess að þar er á ferðinni öðrum þræði skammtímalántaka fólks sem ræður ekki við greiðslubyrðina í húsnæðislánakerfinu og er að fleyta sér áfram í von um að eitthvað verði því til bjargar. Það verður alla vega ekki þessi ríkisstjórn sem svona hefur staðið að málum sem verður þar til lausnar og það hlýtur að bíða gjörbreyttra taka í þessum efnum.
    Ég sakna þess að hv. 12. þm. Reykv. skuli ekki hafa blandað sér í þessa umræðu því það væri fróðlegt að heyra um afstöðu þess hv. þm. til þessarar tillögu og ég lýk máli mínu með því að spyrja hana: Styður hv. 12. þm. Reykv. þingsályktunartillöguna?