Greiðsluaðlögun húsnæðislána

40. fundur
Þriðjudaginn 22. nóvember 1994, kl. 15:47:03 (1836)


[15:47]
     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegur forseti. Þegar boðuð var á sínum tíma þessi nýja tegund húsnæðislána, þ.e. húsbréfalánin, þá óttaðist ég það að þetta fyrirkomulag mundi auka verðbóguna í landinu mjög mikið. Vegna þess að þau yrðu notuð sem eins konar viðbótarseðlaútgáfa hér á landi. Þetta reyndist ekki rétt. Það hefur sennilega verið vegna þess að húsbréfin voru ekki alveg eins mikils virði og okkur var tjáð að þau mundu verða. Okkur var sagt að þessi húsbréf mundu leysa mikinn og stóran vanda og því trúði landslýður allur. Því fór það svo að þegar skrúfað var frá þessum afgreiðslum þá fóru margir á hálfgert gleðifyllirí vegna þess að þeir fengu greiðslumat sem í mörgum tilfellum var hærra en þeir sjálfir trúðu að þeir gætu staðið undir og urðu alveg steinhissa þegar matið kom. Ég talaði við þó nokkuð margt fólk á þessum tíma sem var undrandi yfir hversu rúmt matið var. Ég held að þarna hafi komið fyrsta vandamálið að við vorum, kannski öll þjóðin, of bjartsýn á að þessi leið væri verulega góð og leysti stóran vanda. Svo virðist mér að í sumum tilfellum hafi afgreiðsla þessara lána og notkun farið út í einhverja vitleysu því ég þekki fleiri dæmi um að fólk tók þessi húsbréfalán og seldi húsbréfin og fór svo bara í utanlandsferðir, meira að segja til Brasilíu og guð má vita hvert. Þessi misnotkun á lánunum --- þetta er nefnilega misnotkun á lánunum --- er líka ein ástæðan fyrir því að fólk er komið í erfiðleika í dag. Það var ekki að taka lánin í réttu skyni, sóaði þeim í vitleysu og nagar sig nú í handarbökin. Þetta er auðvitað ekki hægt að kenna hæstv. fyrrv. félmrh. um. Ekki gat hún ráðið við slíka misnotkun. En við vitum líka að þegar þetta lánakerfi var tekið upp þá voru allt aðrar aðstæður í íslensku samfélagi heldur en þær eru í dag. Það verður að segjast eins og er að lánakerfið var síðan ekki lagað að þeim efnahagsbreytingum sem orðið hafa. Það hafa eingöngu orðið hækkanir á greiðslubyrði fólks sem stöfuðu af því að kjörin versnuðu eins og rakið hefur verið hér og líka af því að vinna fólks hefur dregist mjög mikið saman.
    Ég tel að hæstv. ríkisstjórn og félmrh. hefðu átt strax að fylgjast mjög vandlega með þeim breytingum sem urðu á kjörum landsmanna og efnahagslífinu og aðlaga kerfið strax um leið og breytingarnar urðu. Það hefði verið mjög viturlega gert en því miður tókst það ekki. Kannski hefur hæstv. félmrh. reynt þetta en ekki orðið að vilja sínum. Því miður er ástandið í dag þannig að við hittum daglega fólk sem er að missa ofan af sér íbúðirnar og það á bæði við í félagslega kerfinu og hinu almenna kerfi. Báðir aðilar, þeir sem hafa fengið félagslegar íbúðir með húsbréfalánum og hinir, eru núna að missa ofan af sér íbúðirnar. Og þeim er þá vísað út á leigumarkaðinn.
    Ég get ekki látið hjá líða þó það komi kannski ekki algerlega þessu máli við, og því hefur að vísu verið hampað pínulítið hér í dag, að fólkið fer út í að leigja sér íbúðir á rokhárri leigu. Svo eru að koma hérna húsnæðisleigubætur, er það ekki? Þessar leigubætur eiga að byggjast á því að fólkið gefi rétt upp hvað það borgar í leigu. Ég get upplýst hæstv. félmrh. um það að fjöldi fólks í þessu landi getur ekki samkvæmt samningum sínum við leigusalana gefið upp rétta leigu. Þar af leiðandi munu þessar húsnæðisleigubætur að þó nokkru leyti mistakast. Ég held að það muni meira að segja fara svo að leigubótunum verði skipt kannski jafnt eða kannski einn þriðji á móti tveim þriðju á milli leigjandans og þess sem leigir. Ég get ekki látið hjá líða að benda á þennan vanda. Mér þætti gaman að vita hvernig á að koma í veg fyrir þetta.
    Ég vil taka undir þá þáltill. sem hæstv. flm. Svavar Gestsson og Kristinn H. Gunnarsson hafa lagt fram. Ég álít að það verði að grípa til ráðstafana strax og ég held að það komi þrennt til sem hæstv. félmrh. verði að taka með í reikninginn. Það þarf að lengja lánin, það þarf að athuga líka hvort það sé ekki hægt að breyta vaxtabyrðinni sjálfri, þ.e. vöxtunum, og í þriðja lagi þarf að gæta þess vandlega þegar lán eru veitt í framtíðinni að fara varlegar í sakirnar, hafa ákveðnari og miklu varkárara mat en verið hefur. Það sem fólk getur borgað í dag er ekki víst að geti borgað eftir eitt ár og það verður að miða við að því miður eru grunnlaun fólks í landinu svo hraksmánarlega lág og þar er ekki félmrh. um að kenna. Það er launagreiðendum og launaumsemjendum um að kenna. Allt hjálpast þetta að. Hér er ekki bara ríkisstjórninni um að kenna, það er fjöldinn allur af áhrifaaðilum í þessu landi sem hefur komið fólkinu í þá aðstöðu sem við er að etja í dag.
    Við skulum ekki gleyma því að við verðum að gera okkur grein fyrir því að það er grundvallaratriðið í öllum okkar umbótum í dag að bæta grunnlaun fólks í landinu.