Framkvæmdir við álver í kjölfar hækkaðs álverðs

41. fundur
Miðvikudaginn 23. nóvember 1994, kl. 14:07:08 (1885)


[14:07]
     Jóhann Einvarðsson :
    Virðulegur forseti. Ég ætla að beina máli mínu til hæstv. iðnrh.
    Í lok síðasta kjörtímabils og í síðustu kosningabaráttu voru byggðar upp miklar vonir um álverksmiðju í Keilisnesi sem átti að leysa atvinnuvandamálið á Suðurnesjum og ekki síður á höfuðborgarsvæðinu.
    Fyrrv. iðnrh. beitti sér mjög í þessu máli og hélt miklar skrautsýningar þar sem hann var að skrifa undir samninga við Atlantal-samsteypuna. Síðan féll þetta upp fyrir vegna lækkandi álverðs og það var talað um að þetta yrði tekið upp aftur ef álverðið hækkaði upp í 1.700 dollara tonnið. Nú mun álverðið vera rúmlega 1.900 dollarar tonnið og því er spáð að fyrir jól verði það komið um eða yfir 2.000 dollara.
    Nú langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort þetta mál hafi verið tekið upp aftur eða hvort þess sé að vænta að það verði gert.