Vernd barna og ungmenna

42. fundur
Fimmtudaginn 24. nóvember 1994, kl. 11:18:00 (1918)


[11:18]
     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það hefur verið rómur allra þeirra sem tekið hafa til máls hér að þetta frv. sé til bóta og horfi í hina bestu átt og ég er á sömu skoðun. Aðeins vil ég taka undir þau ummæli hv. 2. þm. Vesturl. að e.t.v. verður barnaverndarstofan heldur stórt bákn og er þar af leiðandi kannski þyngri í vöfum, en það verður bara að koma í ljós og bæta þar úr og breyta ef á þarf að halda, því að þetta er fyrsta tilraun með þessa starfsemi undir félmrn.
    Í félmn. hefur verið rætt dálítið við fulltrúa ýmissa aðila um þessa breytingu og allir þeir sem komu til viðtals við okkur álitu að það horfði á betri veg að hafa þennan háttinn á. Mér finnst þó að í greinargerð, sem er hér á bls. 6, um aðskilnað milli verkefna sveitarfélaganna og félmrn., sé kveðið heldur sterkt að orði þar sem sagt er að gert sé ráð fyrir að ráðgjafarþjónusta fyrir almenning verði alfarið í höndum sveitarfélaganna. Ég held nefnilega að minnstu sveitarfélögin geti tæplega valdið þessari ráðgjafarþjónustu eins og skyldi og þar af leiðandi hljóti barnaverndarstofan að koma inn í ráðgjafarþjónustuna að einhverju leyti. Ég tel að þarna geti skiptin sem sagt ekki orðið eins skörp eins og hér er kveðið á um.
    Í heild álít ég að það sé best fyrir hvert mannsins barn að eiga samastað á heimili, hvort sem við erum ung eða eldri og þar af leiðandi álít ég að sú leið að reyna að koma umönnun barna sem mest inn á heimili og smærri einingar hljóti að vera af hinu góða. Og ég tel að það sé eitt af því sem er best í þessu frv. hversu mikil áhersla er lögð á það að allir sem mögulegt er eigi samastað á heimili eða í svo smárri einingu að það líkist heimili.
    Þetta frv. verður síðan rætt í félmn., við munum ræða það þar og ég fagna því að mega leggja þar hönd á plóg.