Lyfjalög

42. fundur
Fimmtudaginn 24. nóvember 1994, kl. 14:16:37 (1957)

[14:16]
     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Eins og greint hefur verið frá, þá stöndum við nokkrir nefndarmenn í heilbr.- og trn. að þessu frv. með fyrirvara og ég vildi gera grein fyrir þeim fyrirvörum sem ég hef á þessu máli.
    Í fyrsta lagi orkar nokkuð tvímælis hvort ákvæðin sem verið er að leggja til að samþykkt séu standist samkeppnislög. Þó svo að ég álíti að samkeppnislög séu kannski ekki í alla staði þau heppilegustu lög sem við ættum að hafa eins og þau eru hér í landinu, þá tel ég dálítið vafasamt að samþykkja lög sem

stangast á við þau.
    Orsökin fyrir því að ég vildi samt standa að þessari lagasetningu og styðja hana var sú að fram kom að neytendur, þ.e. bændur, virtust styðja eindregið þessar breytingar og mér finnst að neytendurnir eigi fyrst og fremst að ráða því hvernig þessum málum er háttað.
    Í annan stað vil ég undirstrika það að mér finnst að í lögunum þurfi að vera kveðið miklu nánar á um það hvernig skuli háttað geymsluaðstöðu og vörslu dýralyfja hjá dýralæknum og þyrftu a.m.k. í reglugerð að vera mjög skýr ákvæði um það að þau stæðust samanburð við vörslu á lyfjum fyrir fólk. Þar má enginn mismunur vera. Enn fremur tel ég að það þurfi að vera mjög skýrt, annaðhvort í reglugerð eða í lögunum sjálfum, að þeir sem afhenda dýralyfin séu læknar sjálfir eða þeir séu búnir að taka þau svo vandlega til að sá sem afhendir þau geti ekki villst á þeim. Mér finnst skorta nokkuð á að um þetta séu ákvæði og þarf þá alla vega að vera í reglugerð.
    Dýralyfjafræði er grein sem ekki er kennd í neinum háskóla fyrir lyfjafræðinga, en eigi að síður held ég að þeir sem annast sölu dýralyfja þurfi að kynna sér þetta fag, dýralyfjafræði. Það ætti að skylda lyfjafræðinga að fara á námskeið um dýralyfjafræði og kynna sér þau sérstaklega, bæði lyfjafræðinga náttúrlega og apótekara. Fyrst og fremst þarf að gæta þess að ekki sé farið óvarlegar með dýralyf en lyf sem mönnum eru ætluð og verður að geta þess alla vega í reglugerð hvaða reglum á að fylgja í þeim efnum.
    Þetta voru helstu fyrirvararnir sem ég vildi gert hafa.