Lyfjalög

42. fundur
Fimmtudaginn 24. nóvember 1994, kl. 15:12:46 (1965)


[15:12]
     Ingibjörg Pálmadóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er rétt sem fram kom hjá hv. síðasta ræðumanni, við eigum ekkert að vera að elta ólar við einhver smáatriði þegar við erum komin að samkomulagi. Það er náttúrlega aðalmálið. Mér fannst hann slá svolitlu ryki í augu manna þegar hann sagði að við værum samábyrg varðandi það slys sem varð í bráðabirgðalagasetningu. Ég er alveg tilbúin til að taka þá ábyrgð á mig sem ég á að bera. En ég samþykkti ekki þessi lög, ég var á móti þeim allan tímann og það eru þeir sem samþykkja lög sem bera ábyrgð á lögum. Síðan koma þessi bráðabirgðalög ekkert því máli við sem við erum að ræða á þessari stundu. Við erum að ræða annað slys sem varð í þessari lagasetningu og slys sem við berum heldur ekki ábyrgð á vegna þess að við vorum á móti þessu máli.
    Ég vildi bara að þetta kæmi fram því að mér finnst ekki rétt að slá ryki í augu manna þegar þeir eru að reyna að ná samkomulagi.