Fréttaflutningur af slysförum

42. fundur
Fimmtudaginn 24. nóvember 1994, kl. 15:23:01 (1970)


[15:23]
     Flm. (Gunnlaugur Stefánsson) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. sem flutt er í þinginu í þriðja sinn sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að skipa nefnd til þess að móta starfsreglur um fréttaflutning og upplýsingaskyldu stofnana um slysfarir og harmraunir fólks.``
    Í greinargerð með tillögunni segir m.a.:
    ,,Tilgangur þessarar tillögu er að koma á fót samráðsvettvangi þeirra aðila og stofnana sem næst koma upplýsingamiðlun af slysförum og harmraunum fólks. Mikilvægt er að samræmdar viðmiðunarreglur eða leiðbeiningar geti ríkt við slíkar aðstæður er taki mið af mannhelgi, virðingu og hluttekningu en um leið af nauðsynlegri upplýsingaskyldu svo að ekki verði vegið að fjölmiðlafrelsi í landinu.
    Fréttaflutningur af slysförum og harmraunum fólks er vandmeðfarið og viðkvæmt mál. Íslenskir fjölmiðlar hafa í áranna rás leitast við að fjalla um slík mál af tillitssemi og varkárni. Þó má greina þá þróun að ágengni fjölmiðla gagnvart einstaklingum, sem hlut eiga að máli, björgunarsveitum að störfum og öðrum viðkomandi aðilum verði æ meiri og óvægnari. Aukin samkeppni fjölmiðla um fréttaöflun af atburðum og málavöxtum getur orðið til þess að misbjóða mannvirðingu og siðrænum gildum. Hér er hvorki verið að leggja til lagasetningu né opinbera reglugerð heldur að þeir aðilar og stofnanir, sem nærri aðstæðum koma, geti sameinast um samræmdar starfsreglur. Þá er einnig mikilvægt að greina betur upplýsingaskyldu viðkomandi stofnana, samtaka og starfsstétta gagnvart fjölmiðlum.
    Í tillögunni er lagt til að dómsmálaráðherra sjái um skipan slíkrar nefndar er lagt gæti grundvöll að samráðsvettvangi og styrkt og eflt gagnkvæman trúnað og skilning viðkomandi aðila og stofnana.``
    Ég vil vekja athygli hv. þm. á þeim stofnunum og samtökum er ég tel að hér þurfi að hafa samráð við og ættu að eiga fulltrúa í þeirri nefnd sem hér er gerð tillaga um að verði skipuð.
    Hæstv. forseti. Hér er einvörðungu rætt um afmarkað hlutverk fjölmiðlanna í landinu. Sannarlega væri ástæða til á þessum umrótatímum að ræða stöðu fjölmiðla í hinu víðasta samhengi en ég tel ekki rétt að gera það undir þessari till. til þál. vegna þess að hér er um mjög brýnt og sérstakt mál að ræða. Mörgum finnst nóg um ágengni fjölmiðla gagnvart þeim sem eiga um sárt að binda og sérstaklega aðstandendum þeirra sem orðið hafa fyrir alvarlegum slysum. Þá eru mörg dæmi um að fjölmiðlar ganga svo hart fram í fréttaöfluninni að þeir ekki einvörðungu trufli björgunarfólk að störfum heldur skýri svo fljótt frá málavöxtum að aðstandendur fá að heyra um lát náinna ættingja í beinni útsendingu jafnvel fáeinum mínútum --- ekki fáeinum klukkustundum --- eftir að hörmulegt slys hefur orðið. Það getur náttúrlega á engan hátt gengið. Hér er ekki verið að vega að fjölmiðlunum. Samkeppni þeirra í millum er geysilega hörð. Ég held að það geti líka verið mjög gott fyrir fjölmiðla að ákveðnar reglur ríki sem allir fjölmiðlar virða og fari eftir þannig að þeir geti treyst hver öðrum þegar um slíkar aðstæður er að ræða eins og þessar.
    Þá er einnig þess að geta að þegar fjölmiðlar flytja fréttir af slysförum í miklum flýti er mikil hætta á, og aldrei meiri hætta á en þá, að þeir segi rangt frá. Mörgum ofbýður hvað fjölmiðlar virðast fara létt með sannleikann í hinum almennu málum og virðast margir fjölmiðlar ekki bera mikla virðingu fyrir því hvort það sem sagt er sé satt eða logið. En þegar um það er að ræða að segja frá harmraunum og slysförum fólks er aldrei sem fyrr mikilvægara en að það sé rétt farið með allar staðreyndir og ekkert megi til skolast. Við stjórnmálamennirnir getum kannski látið okkur það í léttu rúmi liggja þó um okkur sé rætt með einum eða öðrum hætti og ekki alltaf sannleikanum samkvæmt sem við erum vanir. Það er í raun alvarlegra fyrir fjölmiðlana en okkur stjórnmálamennina að þeir segi ekki satt í mörgum tilfellum. Það lýsir þeim betur en þeim sem fjölmiðlarnir eru fjalla um. En þegar um jafnmikilvæga hluti er að ræða og fólk í nauð sem á um sárt að binda, þá verður að gera þá kröfu að heiðarlega sé að verki staðið. Þess vegna flyt ég þessa tillögu nú í fjórða sinn af því að þetta er stærra mál en margan grunar. Ég þekki persónulega fólk sem hefur orðið fyrir því að fjölmiðlar hafa lagt á herðar þess í miklum raunum enn meiri byrðar með óábyrgum fréttaflutningi vegna þess að þeir flýttu sér um of og gættu ekki þeirrar virðingar sem þeim bar gagnvart fólki og mannhelgi þess.
    Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að segja meira um þetta að sinni. Eins og ég sagði hefur þessi tillaga verið flutt þrisvar og ég skora á hv. allshn. að skoða málið enn og aftur og ítarlega og líta á allar hliðar þessa máls. Hér er á engan hátt verið að vega að fjölmiðlafrelsinu í landinu. Hér er ekki verið að leggja til opinbera reglugerð. Hér er ekki verið að leggja til neina lagasetningu. Hér er einvörðungu verið að leggja til að hæstv. dómsmrh. hafi frumkvæði að því að skipa nefnd er geti stofnað til samráðsvettvangs á milli allra þeirra aðila sem að þessum málum koma, fjölmiðla, björgunarsveita, slysavarnasveita, lögreglu, presta, Rannsóknastofnunar háskólans í siðfræði, Samtaka um sorg og sorgarviðbrögð, Læknafélags Íslands og barnaverndarráðs, að skapa vettvang þar sem fulltrúar þessara aðila geti komið saman, rætt þessi mál og mótað með sér reglur sem geti leitt til fjölmiðlunar sem fjölmiðlunum sjálfum yrði samboðin en tæki mið af virðingu og mannhelgi fólks.