Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

45. fundur
Þriðjudaginn 29. nóvember 1994, kl. 15:01:57 (2053)


[15:01]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég vil í upphafi þakka fyrir, sem reyndar er þó ekki þakkarvert, að hæstv. landbrh. er kominn til umræðunnar. Það liggur fyrir, eins og kom rækilega fram í ræðu formanns Framsfl. fyrr í dag, að Framsfl. styður í prinsippinu þessa samningagerð eða aðildina að Alþjóðaviðskiptastofnuninni, en það er að vísu með fyrirvörum. Ég vil, með leyfi forseta, lesa það sem samþykkt var um þetta atriði á nýafstöðnu flokksþingi framsóknarmanna:
    ,,Seint á síðasta ári lauk sjö ára Úrúgvæ-samningalotu GATT. Frá og með næstu áramótum er nýrri alþjóðastofnun, Alþjóðaviðskiptastofnuninni WTO, ætlað að taka við af GATT sem megineftirlitsstofnun alþjóðaviðskipta. Framsfl. er hlynntur markmiðum samningsins og aðild Íslands að stofnuninni. Flokksþingið leggur mikla áherslu á að tryggja starfsskilyrði þeirra atvinnugreina sem lenda í aukinni samkeppni í kjölfar meira frelsis í alþjóðaviðskiptum.``
    Það er þetta sem við viljum reyna að fá fram í þessari umræðu: Hvaða tryggingu fyrir starfsskilyrðum fyrir landbúnaðinn er að vænta í kjölfar staðfestingar á þessum samningi?
    Það er augljóst að engum dettur í hug að það verði komist hjá því að gerast aðilar að þessari stofnun, en hins vegar er ákaflega mikilvægt að við höfum okkar viðbúnað í lagi. Þessi samningur er nefnilega geysilega mikið alvörumál fyrir íslenskan landbúnað. Hann dregur fyrirsjáanlega niður lífskjör íslenskra bænda og fleiri en íslenskra bænda. Hann kemur til með að hafa veruleg áhrif á lífskjör þess fólks sem hefur af því atvinnu að þjónusta landbúnað með einhverjum hætti og/eða vinna úr landbúnaðarafurðum.
    Með þessum samningi undirgöngumst við verulegar skuldbindingar um takmarkaðan lágmarksinnflutning landbúnaðarafurða. Það í sjálfu sér tekur markað frá íslenskum landbúnaði og eykur þrýsting á meiri innflutning og það er kannski meginhættan sem í því liggur. Ef aldrei yrði farið fram úr lágmarksinnflutningnum þá er það ekki óskapleg fórn. Lágmarksinnflutningurinn eykur þrýsting á meiri innflutning. Hæstv. utanrrh. hefur hrósað sér í fjölmiðlum af því að hafa getað komið landbúnaðarstefnu Alþfl. í framkvæmd í gegnum starf sitt sem utanrrh., þ.e. með því að vinna sem formaður Alþfl. við samningagerð á erlendum vettvangi, ekki sem hagsmunagæslumaður eða umboðsmaður ríkisstjórnar Íslands heldur sem formaður Alþfl. því það hefur ekki verið opinber stefna íslensku ríkisstjórnarinnar, ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar, að opna fyrir innflutning á landbúnaðarvörum. Hér hafa sem sagt verið dregnar lokur frá hurðum. Það er allt galopið ef stjórnvöld frá Íslandi vilja. Ef hér kæmi ríkisstjórn sem fylgdi þeirri línu sem Alþfl. hefur fylgt í landbúnaðarmálum, ef hér væru lykilráðherrar sem væru á alþýðuflokksbuxunum, þá mundi landbúnaðarframleiðsla á Íslandi öll vera í uppnámi. Að vísu virðist Alþfl. vera í dauðateygjunum þessa dagana en upp er að rísa arftaki hans, nýr Alþfl. samkvæmt skoðanakönnunum, undir pilsfaldi hv. 12. þm. Reykv. og skipaður fólki úr Alþfl. og reyndar úr fleiri flokkum sem hefur orðið fyrir vonbrigðum á sínum gömlu vígstöðvum. Og guð má vita nema sá flokkur taki upp landbúnaðarstefnu Alþfl. Þar eru rætur þess flokks eða þess þjóðvaka, ég veit ekki hvernig það orð er myndað. Ég hef hugmynd um hvað er vikivaki, ég kann hann að vísu ekki en ég hef séð hann dansaðan. Ég veit ekki hvernig hugmynd um þennan vaka er tilkomin. ( Gripið fram í: Þú veist hvað er andvaka.) Ég veit hvað er andvaka, já, en sleppum því. Það er sem sagt allt galopið fyrir stórfelldan innflutning landbúnaðarvara og þess vegna þurfum við á hæstv. landbrh. að halda í þessari umræðu í dag til að vita hver úrræði hæstv. landbrh. eru til varnar hagsmunum landbúnaðarins.
    Ég veit að það þýðir ekkert að spyrja hæstv. utanrrh. um þetta mál vegna þess að hann er ekki sammála hæstv. landbrh. Ég þarf að fá yfirlýsingu frá hæstv. landbrh. og staðfestingu hæstv. utanrrh. að hann sé sammála hæstv. landbrh.
    Haustið 1991 urðu miklar umræður um aðild okkar að GATT. Þá gaf ríkisstjórnin yfirlýsingu, 10.

jan., og hún var kynnt á Alþingi í umræðum utan dagskrár. Ég vil spyrja hæstv. landbrh. hvort þessir fyrirvarar hafi náð fram að ganga, hvort þeir séu inni í þessari samningagerð. Ég fékk skýrt svar frá hæstv. forsrh. þá og það er spurning mín hvort þessar kröfur hafi verið uppfylltar.
    Í öðru lagi, frú forseti, er landbúnaðarstefna Íslands ekki í takt við landbúnaðarstefnu annarra þjóða. Er heimilt eftir að þessi samningsgerð hefur verið staðfest að taka upp útflutningsbætur á íslenskar landbúnaðarvörur?