Vöruverð lífsnauðsynja og verðmunur á milli þéttbýlis og dreifbýlis

46. fundur
Miðvikudaginn 30. nóvember 1994, kl. 12:37:29 (2107)


[12:37]
     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Það voru margar athyglisverðar spurningar sem hv. síðasti ræðumaður bar fram og verður spennandi að fylgjast með svörunum við þeim. En það sem kallar mig helst hérna upp var ræða hv. þm. Jóns Kristjánssonar þegar hann minntist á það að verslanir væru í nokkrum mæli nú orðið að selja vörur undir heildsöluverði. Þetta er mál sem ég hef margoft rætt hér í ræðustól og ég hef margoft rætt í hv. efh.- og viðskn. en það er þegar menn gera út á virðisaukaskattinn.
    Menn hafa talað hér nokkuð mikið um skattsvik og skattsvikara og þegar menn gera út á virðisaukaskattinn að mínu viti eru þeir ekki að gera neitt annað en að svíkja undan skatti. Þegar menn mynda sér hærri innskatt en útskatt þá eru menn að svindla á kerfinu. Við getum bara tekið dæmi. Þegar verslun kaupir inn á 1.000 kr., þá er hún með innskatt upp á 245 kr. Ef hún síðan selur þá vöru á 500 kr., þá er hún með útskatt upp á 100 kr. sem þýðir það að ríkissjóður þarf að greiða til baka 145 kr. út úr virðisaukaskattskerfinu. Þetta er auðvitað ekkert annað en svindl á kerfinu. En það þýðir ekkert að tala við kerfiskarlana okkar um þetta og ekki heldur ráðherrann. Þetta blasir við öllum sem það vilja sjá, að þegar menn selja undir innkaupsverði, þá eru þeir að gera út á kerfið. Á þessu á Alþingi auðvitað að taka. Það á að banna í einhvern tiltekinn tíma að selja undir heildsöluverði. Auðvitað kemur að því að það þarf að losa vöruna. Það þarf að halda útsölu og annað slíkt. En á einhverjum tilteknum tíma á auðvitað að banna slíkt. Þetta gerir það að verkum að hinir stóru og sterku geta drepið af sér hina litlu. Það er nákvæmlega það sem er að gerast. Þetta hef ég margoft talað um en fyrir daufum eyrum, margoft, og er að reyna það þá enn einu sinni hér og nú.
    Hv. þm. kom líka inn á það að dreifbýlisverslunin borgaði meira í umboðslaun til greiðslukortafyrirtækjanna. Þetta er bara rangt. Þetta er einfaldlega rangt. Það er borgað fyrir greiðslukortin eftir veltu og engu öðru. Það fer eftir veltu fyrirtækjanna og velta dreifbýlisverslunarinnar er mjög svipuð og hjá t.d. bara kaupmanninum á horninu í Reykjavík þannig að það er nákvæmlega sama sem dreifbýlisverslun borgar og kaupmaðurinn á horninu í Reykjavík eða þær verslanir sem hafa litla veltu þannig að það er alger jöfnuður þarna á milli.
    Hv. síðasti ræðumaður talaði um það að heildsalan væri nánast að leggjast af í þessum viðskiptum, hún væri að færast mikið yfir til verslana eins og Bónus. Menn gleyma því að dreifbýlisverslun í mjög miklum mæli er farin að flytja inn sjálf, í mjög miklum mæli. Það er mjög stór innflutningsaðili t.d. í Skagafirði, mjög stór og hann meira að segja selur hingað á Reykjavíkursvæðið. Og þá held ég að menn ættu nú að fara að kíkja á það hvar þessi verðmismunur í raun og veru liggur. Þess vegna fagna ég svona tillögu vegna þess að það dregur það fram í dagsljósið. Ég held að hann liggi fyrst og fremst í álagningunni, fyrst og fremst í smásöluálagningunni úti á landi. En ég get líka skilið það vegna þess að markaðurinn er svo smár að ef þessar verslanir eiga að geta rekið sig þá verða þær að starfa á hærri álagningu þannig að mér þykir það liggja nokkuð í augum uppi af hverju þetta er.
    Hitt er svo annað mál að það er svo eftir svæðum hvernig rekstrarkostnaðurinn er, sérstaklega ef menn eru að horfa til rafmagns og hita og þar er kannski augljósasti munurinn. En þegar menn svo ofan í þetta tala um flutningskostnaðinn þá verða menn líka að taka það inn í myndina að að verulegu leyti í dag er flutningskostnaður greiddur af innflutningsaðilanum. Í verulegum mæli er varan seld héðan af þessu svæði á sama verði til dreifbýlisverslunar og til verslunar hér á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Þá hlýtur maður aftur að koma að þessari áleitnu spurningu: Hver er álagningarþátturinn? Það er m.a. þess vegna sem ég fagna þessari tillögu vegna þess að ég held að hann sé aðalþátturinn í þessu, aðalþátturinn. ( MB: Ekki er það hjá ríkinu.) Ríkið er nú allt annað. ( MB: En brennivínið?) Brennivínið er reyndar selt á sama verði út úr öllum verslunum á landinu en þar sem ekki eru verslanir, þar kemur flutningskostnaður ofan á. Það þekkir hv. frammíkallandi en við fluttum tillögu um það að jafna þann kostnað á sínum tíma en það fékk ekki að koma út úr nefnd.
    Ég held hins vegar að það væri ráð þegar svona könnun fer fram, hv. flm., að leggja hugsanlega

höfuðáherslu á þær vörutegundir og matvörutegundir sérstaklega eða lífsnauðsynjar sem eru inni í framfærsluvísitölunni og gera verðsamanburð þar á. Alla vega verður að taka út ákveðna flokka og bera þá beint saman. Ég held að menn fengju þá betri mynd af þessu máli.
    Hæstv. forseti. Ég kom fyrst og fremst upp til þess að ræða enn einu sinni um virðisaukaskattinn sem mér finnst alveg fáránlegt að menn séu ekki tilbúnir að taka á með neinum öðrum hætti. En ég kom líka upp til þess að fagna þessari tillögu af því að ég tel að það sé löngu orðið tímabært að draga það fram í dagsljósið hvernig þetta er í raun og veru vegna þess að menn eru sýnkt og heilagt að skella skuldinni eða ásaka verslunina í Reykjavík og innflutningsaðila í Reykjavík fyrir það að þeir haldi þessu verði uppi. Ég fullyrði að það sé rangt. En ég get alveg tekið undir það að í einstaka tilfellum er þetta vafalaust rétt, í einstaka tilfellum, en í miklum meiri hluta eru menn að selja á sama verði út um allt land. Það þekki ég af eigin raun því að ég hef stundað slíka verslun og hún var stunduð með þeim hætti að flutningskostnaður var yfirleitt greiddur og það er yfirleitt krafa þeirra sem eru að versla við heildsalana í Reykjavík. Það eru einstaka mjög stórir aðilar sem hafa efni á því að haga sér með öðrum hætti.