Viðlagatrygging

47. fundur
Föstudaginn 02. desember 1994, kl. 10:43:18 (2144)


[10:43]
     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er um að ræða mál sem engan þarf að undra að sé rætt á hv. Alþingi og komi hér á dagskrá. Mönnum er í fersku minni snjóflóðið mikla sem féll á útivistarsvæði Ísfirðinga núna í apríl sl. Þessar náttúruhamfarir eyðilögðu m.a. útivistarsvæði eins og hér hefur fram komið og í kjölfar þessara hamfara gaf ríkisstjórnin fyrirheit um fjárstuðning til enduruppbyggingar þessa svæðis.
    Til að efna þessi fyrirheit beitti ríkisstjórnin sér fyrir því að breyta lögum um Viðlagatryggingu Íslands. Markmið þessa frv. er ekki aðeins að skíðalyftur skuli framvegis vera tryggðar heldur séu lögin afturvirk þannig að Ísfirðingar fái þetta greitt. Mig langar aðeins að vitna í það sem kom fram í blaði sem heitir Bæjarins besta á Ísafirði, en þar segir bæjarstjórinn á Ísafirði m.a., með leyfi forseta:
    ,,Aðstoð ríkisins við endurbyggingu verður í því formi að lögum um Viðlagatryggingu Íslands verði breytt á næsta þingi þannig að skíðamannvirki verða skyldutryggð og lagabreytingin verður afturvirk svo að Ísfirðingar fái greiddar bætur vegna mannvirkjanna í Seljalandsdal eins og þau hafa verið tryggð. Það má því segja að skíðalyfturnar sem eyðilögðust í snjóflóðinu í vetur verði tryggðar eftir á.``
    Enn er vitnað í bæjarstjórann og kemur þar fram að ekki sé búið að reikna út nákvæmlega hver upphæðin sem Viðlagatrygging mun leggja til verði, en ljóst sé að um rúmar 90 millj. kr. sé að ræða. Svo kemur fram í sömu grein að þeir eru stórtækir á Ísafirði og ætla að reisa mannvirki sem kostar 230 millj.
    Ég gleðst nú fremur yfir því en hitt að Ísfirðingar skuli fá ef samþykkt verður á Alþingi þessa fjárupphæð til að endurbyggja sínar skíðalyftur, en mig langar í beinu framhaldi af því að bera saman önnur lög, skaðabótalög sem margir hér hafa rætt um að hefðu þurft að vera afturvirk. Þó það sé kannski ekki beint á borði hæstv. heilbr.- og trmrh. þá er hann í ríkisstjórn sem styður þetta sem hér um ræðir en studdi ekki hið síðarnefnda.
    Þannig er að nokkur ungmenni slösuðust alvarlega og hlutu af því ævilanga örkumlun fyrir gildistöku skaðabótalaga, en þau tóku gildi í júlí 1993. Þessi ungmenni eiga óuppgerðar skaðabætur þrátt fyrir mikinn dugnað þeirra og aðstandenda þeirra að fá hluta nýrra skaðabótalaga afturvirkan, þann hluta er sneri að börnum og ungmennum, á þeim forsendum að ævitekjur þessara ungmenna sem orðið hafa fyrir ævilangri fötlun mundu hækka verulega. Þannig mundu þau njóta fullra mannréttinda og fá hjálp við að endurreisa og byggja upp líf sitt að nýju eftir þá miklu persónulegu harma sem þau hafa orðið fyrir.
    Á vegum dómsmrh. var málið sett í nefnd. Nefndin komst að því að lögin geta ekki orðið afturvirk af því að tryggingafélögin bæru of mikinn skaða af því. Ef við berum þessi tvö mál saman þá eru þau þannig að skíðalyftan á Ísafirði var tryggð en ekki nægjanlega tryggð. Lögum um viðlagatryggingu verður að líkindum breytt og gerð afturvirk. Börnin og ungmennin sem lentu í slysinu fyrir staðfestingu skaðabótalaga voru tryggð en ekki nægilega tryggð. Í öðru tilvikinu þykir rétt að bæta það fjárhagslega tjón sem varð á mannvirkjum en í hinu tilfellinu þykir ekki rétt að bæta það fjárhagslega tjón sem þessi ungmenni urðu fyrir. Á þetta finnst mér að ég þurfi að benda þó að það breyti kannski ekki miklu en það minnir okkur svolítið á það gildismat sem er í gangi hjá hæstv. ríkisstjórn.
    Það þarf ekki að fara mörgum orðum um að vegna þeirrar miklu eyðileggingar sem hefur orðið á líkama þessara barna og ungmenna er starfsþrek þeirra þannig að ekki verður úr bætt.
    Hér sem sagt verið að bæta úr því sem miður hefur farið í mannvirkjagerð en það er ekki reynt að bæta úr því með fjárhagslegum styrk það sem miður hefur farið vegna líkamslegs tjóns.