Brunatryggingar

47. fundur
Föstudaginn 02. desember 1994, kl. 10:49:29 (2145)


[10:49]
     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Á sl. vori voru samþykkt á Alþingi ný lög um brunatryggingar. Þar voru felld saman lagaákvæði sem áður höfðu verið í tvennum lögum, lögum um brunatryggingar í Reykjavík og lögum um brunatryggingar utan Reykjavíkur.
    Helstu nýmæli þessara laga voru m.a. að afskipti sveitarstjórna af brunatryggingum utan Reykjavíkur voru felld niður, og einkaréttur Húsatrygginga Reykjavíkurborgar á brunatryggingum húseigna í Reykjavík var jafnframt felldur niður. Enn fremur var í lögunum það nýmæli að Fasteignamat ríkisins gæti annast virðingu skylduvátryggðra húsa og skyldi halda utan um skráningu brunatryggðra húseigna í landinu. Þessi breyting tengdist skipulagsbreytingum sem verið er að gera á Fasteignamati ríkisins og uppsetningu svokallaðrar landskrár fasteigna. Ríkisstjórnin fyrirhugar að flytja vátryggingastarfsemi frá heilbr.- og trmrn. til viðskrn. Frv. þar að lútandi er í undirbúningi í forsætisráðuneytinu. Með því frv. mun 5. gr. laga um brunatryggingar breytt.
    Hér er hins vegar á ferðinni frv. til þess að gera auðveldara að framfylgja þeirri auknu samkeppni sem leidd var í lög í fyrravor á Alþingi eins og ég gat um áðan. Til þess að sú samkeppni geti gengið eðlilega fyrir sig þarf að vera til hjá einum opinberum aðila skrá yfir allar vátryggjanlegar fasteignir í landinu þannig að aðilar í vátryggingastarfsemi sem vilja keppa og bjóða eigendum slíkra fasteigna iðgjöld geti fengið allar tiltækar upplýsingar en svo er ekki nú.
    Ef ég fer, virðulegi forseti, í efni þessa frv. grein fyrir grein þá er í fyrsta lagi gert ráð fyrir því, ef frv. þetta verður að lögum, að Fasteignamat ríkisins annist að öllum jafnaði fyrstu virðingu brunatryggðra eða brunatryggjanlegra fasteigna þannig að ljóst sé að það sé ávallt sami aðili hér eftir sem annist hina fyrstu virðingargjörð. Að sjálfsögðu getur eigandi síðan beðið aðra aðila, löggilta virðingaraðila, um mat á húseign sinni hvenær sem viðkomandi aðili óskar eftir því. En ef Fasteignamat ríkisins sér ástæðu til að framkvæma endurmat, t.d. vegna breyttra aðstæðna, þá geti Fasteignamatið gert það en vátryggingafélaginu og húseigandanum að kostnaðarlausu. Það er reiknað með því að fyrsta virðingargerðin sem Fasteignamat ríkisins annist sé einnig húseigandanum að kostnaðarlausu.
    Þá er í c-lið 1. gr. frv. gerð tillaga um að breyta 3. mgr. þannig að vátryggingarverði húsa skuli breytt til samræmis við vísitölu byggingarkostnaðar hinna ýmsu tegunda húseigna.
    Þarna er átt við að það getur verið allt önnur verðþróun á t.d. íbúðarhúsnæði en á atvinnuhúsnæði og það getur orðið allt önnur verðþróun á einni tegund atvinnuhúsnæðis en annarri. Gert er ráð fyrir því að heimilt skuli að breyta vátryggingarverði húsa en þá í samræmi við vísitölu byggingarkostnaðar hinna ýmsu tegunda húseigna þannig að endurmatið sé í samræmi við verðþróun þeirrar tegundar húseigna sem húseignin sem verið er að endurmeta fellur undir.
    Þá er í d-lið 1. gr. einnig nýtt ákvæði. Þar er gert ráð fyrir því að heimilt verði með reglugerð að ákveða að húseigendur greiði árlegt umsýslugjald af brunabótamati húseignar til Fasteignamats ríkisins. Gert er ráð fyrir að viðkomandi vátryggingafélag innheimti þetta gjald og skili því til Fasteignamatsins og umsýslugjaldið skuli aldrei vera hærra en 0,03‰ af brunabótamati húseignar sem þýðir að af húseign sem metin er á 1 milljón greiðir viðkomandi aðili 30 kr. í umsýslugjald. Er þetta gjald þjónustugjald sem gert er ráð fyrir að standi undir kostnaði við starfsemi Fasteignamats ríkisins en að sjálfsögðu verður að gera ráð fyrir því að Fasteignamat ríkisins fái tekjur af þeim fasteignum sem hún virðir og heldur síðan skrá yfir til að auðvelda bæði tryggingatökum og tryggingasölum að stunda eðlilega samkeppni á tryggingamarkaðinum.
    Það kom upp ágreiningur í hópi þeirra aðila sem endurskoðuðu lögin um brunatryggingar og bjuggu til þetta frv. hvort það þyrfti á slíku ákvæði að halda í lög um brunatryggingar. Ýmsir þeirra sem í nefndinni sátu töldu að eins og lögin væru úr garði gerð þá væri ráðherra hvort eð heimilt að setja reglugerð um umsýslugjald. Um það var hins vegar ágreiningur þannig að sumir eða réttara sagt einn nefndarmanna var ekki þeirrar skoðunar. Niðurstaðan varð sú að nefndarmenn lögðu til að heilbr.- og trmrh. legði þessa breytingu til við Alþingi þannig að tekin væru af öll tvímæli um það hvort heimilt væri að setja reglugerð um umsýslugjald eins og gert er ráð fyrir að heimilað verði í lögunum verði d-liður 1. gr. samþykktur.
    Þá er í 2. gr. ákvæði þess efnis að vátryggjanda verði gert heimilt að veita undanþágu frá byggingarskyldu að höfðu samráði við skipulagsyfirvöld gegn því skilyrði að 15% dragist frá bótafjárhæðinni. Í greininni segir að frádrætti þessum skuli þó ekki beitt ef endurbygging sé eigi heimil af skipulagsástæðum eða öðrum ástæðum sem tjónþola er ekki sjálfrátt um. Með öðrum orðum er því aðeins heimilt að beita þessari frádráttarheimild að það sé tjónþoli sjálfur sem óskar eftir undanþágu frá byggingarskyldu.

    Þetta er einnig nýmæli en þó í samræmi við heimild sem var í lögum um Brunabótafélag Íslands og verið hefur í skilmálum Húsatrygginga Reykjavíkur en var ekki í lögum um það síðarnefnda. Hér er verið að festa í sessi undir öllum kringumstæðum framkvæmdavenju sem verið hefur þó svo að hún hafi stórt séð aðeins verið heimild í lögum um Brunabótafélag Íslands, þ.e. varðandi tryggingu húseigna utan Reykjavíkursvæðisins þó að þessu ákvæði eða þessari verklagsreglu hafi verið beitt varðandi brunatryggingar á landinu öllu.
    Þá er í 3. gr. nokkur ákvæði sem eru til samræmis við breytingar sem gerðar voru með lögum um nauðungarsölu en þess var ekki nægilega vel gætt við setningu laganna í vor að lög um brunatryggingar og lög um nauðungarsölu væru samhljóða um það hvernig fara skyldi með þegar til nauðungarsölu þurfi að grípa.
    Þá er í 4. gr. ákvæði sem lúta að því að utan Reykjavíkur hafa sveitarfélög borið ábyrgð á að húseignir væru brunatryggðar. Engin sambærileg ákvæði hafa verið í gildi í Reykjavík og er þetta enn eitt dæmið um það að lög um húsatryggingar í Reykjavík og húsatryggingar utan Reykjavíkur voru ekki samstiga. Þegar einkaréttur sveitarfélaga til brunatrygginga fellur niður getur skapast hætta á því að eignir falli úr brunatryggingu þó svo að reynt hafi verið gæta þess að lágmarka eftir því sem unnt væri líkur á því að svo geti gerist, m.a. með því að fela Fasteignamatinu að hafa umsjón og eftirlit með skráningu brunatryggðra eigna. Ef slíkt tilvik kæmi upp þykir nauðsynlegt að tryggja að tjón verði engu að síður bætt enda verði húseiganda ekki kennt um brottfall tryggingar. Það getur að sjálfsögðu gerst að hús sem ætti að brunatryggja félli óvart úr tryggingu án þess að viðkomandi húseigandi bæri á því sök. Það gætu verið mistök sem gætu t.d. gerst við tilfærslu brunatryggðra húseigna á milli tryggingafélaga. Ef svo er þykir eðlilegt að eigandi húsnæðisins fái eign sína bætta ef tjón verður á henni vegna bruna og er því hér sett ákvæði um þetta efni þar sem Sambandi íslenskra tryggingafélaga er falið að hafa milligöngu um bótagreiðslur og endurkrefja annaðhvort þann sem sök átti á því að húseign féll úr tryggingu eða deila kostnaði á vátryggingafélög sem selja brunatryggingar. Áþekkar reglur hafa gilt síðan 1970 varðandi lögboðnar ábyrgðartryggingar ökutækja. Rétt er að taka fram að um þetta ákvæði hefur verið haft samráð við tryggingafélögin.
    Í 5. gr. eru svo ákvæði um að lög þessi öðlist tafarlaust gildi.
    Umsögn frá fjmrn., fjárlagaskrifstofu, fylgir svo frv. í fskj. eins og venja er.
    Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.