Brunatryggingar

47. fundur
Föstudaginn 02. desember 1994, kl. 11:06:16 (2147)


[11:06]
     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi um ágreining lögfræðinga þá ítreka ég það sem ég áður sagði að í þeirri nefnd sem undirbjó frv. voru lögfræðingar einir þrír. Tveir þeirra töldu að enginn vafi væri á því að lögin, eins og þau eru úr garði gerð, heimiluðu trmrh. að setja umsýslugjald með reglugerð. Þeir voru ekki í neinum vafa um það. Einn lögfræðinganna var hins vegar annarrar skoðunar, taldi að ekki væri heimilt að óbreyttum lögum að setja þessa reglugerð. En allir þrír urðu sammála um það að leggja til við heilbr.- og trmrh. að hann legði fram þessa breytingu á lögunum við Alþingi og óskaði eftir því að Alþingi afgreiddi það svona.
    Eftir að fram kom í nokkrum fjölmiðlum gagnrýni á reglugerðina þá kallaði ég til fundar með vátryggingaeftirlitinu og fulltrúum vátryggingafélaganna, m.a. stjórnendum VÍS hjá hverjum sá lögfræðingur vinnur sem hv. þm. réttilega hafði eftir gagnrýni á þessa gerð, og spurði forsvarsmenn vátryggingafélaganna, þar á meðal VÍS, hvort þeir væru sammála þessu áliti. Þeir kváðu nei við. Það voru aðeins Húsatryggingar Reykjavíkur sem voru sammála því að ekki væri heimilt að leggja á þetta umsýslugjald með reglugerð að óbreyttum lögum. Það er nú einu sinni, virðulegi forseti, atvinna lögmanna að vera ósammála um lög svo að það er ekki skrýtið þó svo sé í þessum efnum eins og svo mörgum öðrum, en er þá ekki einfaldast að slá á það með því að setja alveg ótvíræðan lagatexta þannig að lögfræðingar geti ekki haft atvinnu af því að deila sín á milli um þessa gerð?
    Það er hins vegar umhugsunarvert og athyglisvert að það vill svo til að sá aðili sem gagnrýndi þetta hvað harðast sem borgarlögmaður í Reykjavík hefur nú það hlutverk að verja sjónarmið þess ráðherra sem hér stendur sem nýr ríkislögmaður. Ég er ekki í vafa um að hann mun fylgja þeirri vörn fast fram ef á þarf að halda og standa sig vel í stykkinu sem verjandi sjónarmiða heilbr.- og trmrh. í þessu máli. Virðulegi forseti. Það er nú ekki oft sem einn og sami lögfræðingur getur haft atvinnu af því að deila við sjálfan sig. En það vitaskuld sparar mikla fyrirhöfn í ágreiningi lögfræðinga sín á milli.
    Um skattlagningu án þjónustu er það að segja að allir húseigendur, eigendur íbúða og atvinnuhúsnæðis, njóta þjónustu Fasteignamats ríkisins. Þ.e. Fasteignamat ríkisins á að halda skrá yfir allar fasteignir á landinu og brunatryggingavirði þeirra þannig að allir, líka núverandi íbúðareigendur, munu njóta þjónustu Fasteignamatsins. Auðvitað geta þeir leitað til þess um virðingagerð til þess að endurmeta sínar húseignir ef þeir vilja, en þjónustan er fyrst og fremst fólgin í því að ef þessi opinberi aðili héldi ekki skrá yfir fasteignir í landinu og verðmæti þeirra samkvæmt virðingargerð væri ógerningur fyrir tryggingafélögin að keppa um að bjóða niður iðgjöld fyrir brunatryggingu húseigna á Íslandi og þeir sem skaðast myndu af því yrðu fyrst og síðast húseigendurnir sjálfir. Það er vissulega þjónusta við húseigendur sem Fasteignamat ríkisins mun veita. Fyrir þá þjónustu greiða húseigendur sem svarar 30 kr. af hverri milljón sem húseignir þeirra eru metnar á og ég verð nú að segja, virðulegi forseti, að það er ekki dýr þjónusta þegar litið er til þess hvað þjónustan tryggir húseigendum á Íslandi og hvaða möguleika sú þjónusta sem Fasteignamat ríkisins veitir gefur til að lækka iðgjöld brunatryggðra húseigna í landinu hvort sem þær eru í eigu einstaklinga, félaga eða samtaka.