Tengsl ferðaþjónustu við íslenska sögu

49. fundur
Mánudaginn 05. desember 1994, kl. 15:15:59 (2178)


[15:15]
     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég fagna því að hæstv. samgrh. skuli hafa skipað nefndina enda þótt ég hefði kannski kosið að hún væri svolítið öðruvísi skipuð. Hugmyndin á bak við tillöguna var m.a. sú að leita til fólks sem hefur sérfræðiþekkingu á sviði sögu og menningar, þjóðhátta og á fleiri sviðum sem hægt er að tengja við ferðaþjónustuna. Hins vegar er ekkert sem kemur í veg fyrir að þeir sem skipa nú nefndina leiti til sérfræðinga á ýmsum sviðum því að eins og ég hugsaði þetta upphaflega þá var hugmyndin einmitt sú að búa til eins konar hugmyndabanka, benda aðilum í ferðaþjónustu og í skólakerfinu og víðar á það sem hægt er að gera. Slíkar hugmyndir þarf að tengja söfnum og þeim sögustöðum sem við búum yfir sem við höfum alls ekki nýtt. Við höfum alls ekki nýtt fornar bókmenntir okkar og tungumálið og ýmsa þjóðhætti og sérkenni sem við eigum og öðrum þykir merkilegt að sjá og heyra.
    En ég fagna því að nefndin hefur verið skipuð og vona að henni gangi vel í störfum sínum og að hún leiti til fólks sem ég veit að hefur ýmiss konar hugmyndir, fólk sem m.a. vinnur á Þjóðminjasafninu og hefur t.d. velt fyrir sér hvernig hægt er að kynna íslenskan mat og íslenska matargerð sem er auðvitað afar sérstök. Því miður er allt of lítið gert af því að bjóða útlendingum upp á þjóðlegan íslenskan mat. Það má hugsa sér ráðstefnur, námskeið um íslenskar fornbókmenntir o.s.frv. Möguleikarnir eru margir. En ég fagna því að nefndin hefur tekið til starfa og við fáum þá vonandi brátt að sjá hvað út úr því starfi kemur.