Ráðstefna Sameinuðu þjóðanna um málefni kvenna

49. fundur
Mánudaginn 05. desember 1994, kl. 15:51:17 (2191)


[15:51]
     Valgerður Gunnarsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. fyrir að koma með þessa fyrirspurn og ráðherra fyrir svör. Mér finnst mjög mikilvægt að það sé vel staðið að undirbúningi að þátttöku og framlagi íslenskra kvenna á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um málefni kvenna. Íslenskar konur tóku mjög virkan þátt í norræna kvennaþinginu í Finnlandi í sumar en þar mættu alls um 1.300 konur og tóku þátt í jafnréttisumræðunni, m.a. um ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna.
    Eins og kom fram í máli hv. þm. þá eru þetta raunar tvær ráðstefnur, þ.e. hin opinbera ríkjaráðstefna og svo ráðstefna frjálsra félagasamtaka. Ég vil hvetja stjórnvöld til þess að styðja við bakið á grasrótarkvennasamtökunum hér á landi, helst með fjárframlögum eða öðrum góðum stuðningi til þess að þau félagasamtök geti sinnt undirbúningi og haft áhrif á þá framkvæmdaáætlun sem fjallað verður um á ráðstefnunni.
    Í framhaldi af þessu vil ég undirstrika það að ég tel brýnt að Íslendingar taki meiri þátt í starfi að mannréttindum á málefnum kvenna á alþjóðavettvangi. Ég vil því skora á hæstv. utanrrh. að marka nú þegar skýra stefnu í því máli og gætum við t.d. byrjað á því að senda fulltrúa í kvennanefnd Sameinuðu þjóðanna og stefna svo að þátttöku okkar í sérfræðinganefndum svo sem nefnd sem vinnur að afnámi misréttis gegn konum.