Lyfjaverslun Íslands hf.

50. fundur
Þriðjudaginn 06. desember 1994, kl. 14:35:25 (2213)


[14:35]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það er að einu leyti jákvætt að frv. þetta er hér fram komið og það er vegna þess að þar með gefst færi á að ræða frammistöðu hæstv. ríkisstjórnar og meðferð hæstv. ríkisstjórnar og hæstv. fjmrh. á þessu máli og fleiri einkavæðingarmálum sem uppi hafa verið. Að öllu öðru leyti er með öllu ástæðulaust að vera að sýna þetta plagg hér og eðlilegast að því verði vísað til föðurhúsanna, en ekki til efh.- og viðskn. og hæstv. ríkisstjórn láti nú staðar numið í einkavæðingarafrekum sínum enda nóg að gert. En fyrir hitt er ég þakklátur að fá tækifæri til að ræða þetta mál á nýjan leik áður en þetta þing lýkur störfum og kjörtímabilinu lýkur.
    Það fór nú svo á þingi sl. vetur, hæstv. forseti, að við í minni hlutanum urðum ekki öll samferða í afstöðu til þessa frv. Sá sem hér talar, ásamt með hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur, við drógum til baka stuðning okkar við þau áform sem ríkisstjórnin var þá að kynna um einkavæðingu Lyfjaverslunar ríkisins. Ég verð að segja alveg eins og er að ég sé svo sannarlega ekki eftir því að hafa endurskoðað hug minn til þess máls á sl. vetri þegar ég sá hvernig hæstv. ríkisstjórn hugðist standa að málum.
    Það er svo til marks um það að þessari ríkisstjórn er ekki treystandi, við hana er ekki hægt að semja, það er ekki komandi nálægt því að miðla málum með hæstv. ríkisstjórn og núv. meiri hluta á þinginu, að þakkirnar sem þeir stjórnarandstæðingar sem þó studdu málið við afgreiðslu þess í fyrra á grundvelli þeirrar málamiðlunar að ekki yrði seldur nema helmingur af fyrirtækinu fá þennan rýting í bakið fáeinum mánuðum síðar. Að sjálfsögðu ætlar hæstv. ríkisstjórn ekkert að gera með það samkomulag sem hún gerði við Framsfl., ef svo má þá kalla það því það mun hafa verið Framsfl. einn af stjórnarandstöðunni sem studdi málið, því nú flytur hún nokkrum mánuðum síðar frv. um að selja afganginn, ef sölu skyldi þá kalla. Staðreyndin er sú, hæstv. forseti, í fyrsta lagi að hæstv. ríkisstjórn er í fæstum tilvikum að selja ríkisfyrirtæki, hún er að afhenda ríkisfyrirtæki. Hún stendur fyrir útsölu á eignum almennings í landinu. Hæstv. fjmrh., Friðrik Sophusson, er orðinn einhver mesti útsölustjóri, útsölumeistari sem Íslandssagan hefur alið. Útsölustjóri ríkisins væri í raun og veru meira réttnefni á hæstv. fjmrh. en sá titill sem honum dags daglega ber. Og afrek útsölustjórans, hæstv. fjmrh., má m.a. sjá í þessu máli.
    Staðreyndin er sú og hefur margsannast í þessu máli og fleirum að það er annað sem hæstv. ríkisstjórn gengur til en það að selja ríkisfyrirtæki hæstbjóðanda fyrir fullt verð. Það er ekki alltaf aðalatriðið, það er ekki mergurinn málsins. Það er tilgangurinn sem helgar meðalið hjá hæstv. ríkisstjórn. Hæstv. ríkisstjórn er alveg sama hvernig hún kemur fyrirtækjunum út bara ef það getur heitið einkavæðing. Og þó að það kosti að þverbrjóta þurfi allar skynsamlegar reglur og vinnubrögð eins og átt hefur sér stað endurtekið við söluna á SR-mjöli og fleiri fyrirtækjum, þá er það í lagi að mati hæstv. ríkisstjórnar því tilgangurinn helgar meðalið. Niðurstaðan er sú sem almenningur í landinu má horfa upp á að eignir þjóðarinnar sem byggðar hafa verið upp jafnvel með áratuga rekstri fyrirtækja, í sumum tilvikum fjárframlögum úr ríkissjóði, í öðrum tilvikum í gegnum gjaldskrá fyrirtækjanna sem almenningur hefur borið í formi þjónustugjalda eða viðskipta við þessar stofnanir eða þá með ábatasömum og skynsamlegum rekstri þar sem ríkið hefur leyft eign sinni að ávaxtast og margfaldast í verðmæti og byggjast upp í myndarleg fyrirtæki eins og í tilviki SR-mjöls, þá er allt í einu af hálfu þessarar ríkisstjórnar tekin upp sú stefna að fara með þessar eignir á útsölu. Vegna þess að tilgangurinn helgar meðalið.
    Hæstv. ríkisstjórn liggur svo mikið á að sýna fram á að hún hafi náð einhverjum árangri í því að koma með góðu eða illu fyrirtækjum úr eigu ríkisins að það er látið ráða ferðinni. Upp koma aðstæður eins og þær sem hér er fjallað um að það er haldin útsala á 50% eignarhlut ríkisins í einu af svona snyrtilegri gróðafyrirtækjum landsins sem verið hefur um langt árabil, Lyfjaverslun Íslands hf. Fyrirtæki sem er með þannig markaðsstöðu og hefur þannig sambönd og þannig stöðu að það er með nokkuð tryggan hagnað upp á 50--100 millj. á ári. Það er nánast áskrifandi að hagnaði upp á 60--80 millj. á ári. Vel upp byggt fyrirtæki með miklar eignir er selt þannig, verðlagt af einhverjum snillingum á einhverjum verðbréfamörkuðum úti í bæ og síðan selt með þannig lánskjörum og fyrirkomulagi að það er ekki hægt að kalla það annað en útsölu.
    Í fyrsta lagi vekur það mikla athygli að verðbréfaaðilarnir eða hverjir það nú voru þessir snillingar sem voru á góðum launum án efa hjá ríkinu við það að verðleggja fyrirtækið, finna það út að markaðsverðið sé í raun heldur undir eigin fé fyrirtækisins, þ.e. að 300 millj. kr. nafnverð hlutabréfa er ákveðið að selja á genginu 1,34 þó að eigið fé sé um 430 millj. Ég spyr í fyrsta lagi: Hvar er verðlagningin á viðskiptavild og stöðu þessa fyrirtækis? Hvar er hún? Hvar eru peningarnir sem eru borgaðir fyrir það að þetta er eina dreypilyfjaverksmiðja landsins sem hefur þar af leiðandi nokkuð öruggan markað hjá öllum sjúkrahúsum fyrir öll stungulyf? Einhver vildi sjálfsagt þiggja að komast í þá aðstöðu. Hvar sér þess stað í verðlagningunni á bréfunum? Hvergi, því þetta er ekki nema rétt tæplega, gengi bréfanna gerir ekki nema

rétt rúmlega það að vega upp mismuninn sem er á nafnverði hlutabréfanna og eigin fé fyrirtækisins. Þannig er nú það. Ég fæ ekki séð annað en með því sé markaðsstaðan einskis metin, viðskiptavildin einskis metin, hún er gefin. Svo mikið fyrir þessa miklu snillinga sem hafa lagt mat á verð fyrirtækisins.
    Það er kannski ekki rétt að skammast út í hæstv. fjmrh. fyrir það út af fyrir sig. Hann ber ekki faglega ábyrgð á niðurstöðu Verðbréfaþingsins eða framkvæmdanefndar um einkavæðingu, eða Kaupþing sem það hét víst þetta batterí sem þarna var á spenanum við að verðleggja fyrirtækið. En það er þá í öllu falli hlutverk fjmrh. að leggja pólitískt mat á hvort fýsilegt sé við þessar aðstæður að selja hlutinn og það tel ég orka mjög tvímælis.
    Í öðru lagi eru þau kjör sem þarna bjóðast þegar lögð eru saman í fyrsta lagi lánskjörin sem þarna eru boðin, í öðru lagi sú staðreynd að menn eiga kost á skattafrádrátt út á hlutabréfakaupin og í þriðja lagi sú staðreynd að fyrirtæki getur síðan tekið til við að borga þessum nýju hluthöfum sínum arð strax frá byrjun, þá náttúrlega er alveg augljóst mál að það er verið að framkvæma útsölu á fyrirtækinu og ekkert annað vegna þess, eins og ég segi, að væntanlega helgar tilgangurinn meðalið.
    Síðan er hér, hæstv. forseti, alveg kostulegt fylgiskjal, fskj. I, með þessu frv. frá framkvæmdanefnd um einkavæðingu. Þessum mikla snillingahópi sem ríkisstjórnin hefur hrúgað saman til þess að gefa fyrirtæki þjóðarinnar, koma þeim út með góðu eða illu eða einhvern veginn, selja þau á hálfvirði eða með einhverjum öðrum afslætti ef svo ber undir, eins og hæstv. fjmrh. hefur orðið heimsfrægur fyrir að taka sér í munn að geti verið réttlætanlegt. En þar eiga þeir náttúrlega að gleðjast yfir því og fagna þeim miklu tíðindum að það hefur orðið mikil eftirspurn eftir þessum bréfum og komast að þeirri stórkostlegu niðurstöðu í þessu fskj. að í fyrsta lagi sé ljóst að hin hagstæðu greiðslukjör höfðu hvetjandi áhrif á flesta kaupendur. Þetta kalla ég einhvern mesta salómonsdóm sem lengi hefur fallið og kemst næst þeim hinum fyrri og eina og sanna salómonsdóm. Að það sé líklegt að hin hagstæðu greiðslukjör hafi haft áhrif á kaupendurna, hvatt þá frekar til kaupanna en hitt. Þetta finnst mér mjög skarplega athugað og merkilegt að mennirnir skyldu ekki átta sig á því áður en þeir buðu upp á þessar hagstæðu greiðslur.
    Í öðru lagi er talið að þetta sé til marks um að þarna hafi verið um áhugaverðar fjárfestingar að ræða og megi vænta góðrar arðsemi af hlutabréfunum. Hvers vegna skyldi það nú vera? Jú, það er vegna þess að fyrirtækið hefur verið rekið með 60--80 millj. kr. gróða að meðaltali um langt árabil og það er vegna stöðu sinnar á markaðnum nánast áskrifandi að þessum hagnaði. Það er náttúrlega ekki nema von að mönnum detti í hug að þetta sé góð fjárfesting. En er þá ekki að sama skapi verið að selja verðmætan hlut? Jú, ég skildi halda það og það ætti þá að endurspeglast í söluverðinu. En því er ekki fyrir að fara því í raun og veru fær ríkið ekki nema rétt að nafninu til eigið fé út úr fyrirtækinu við að selja það eins og ég hef hér sýnt fram á. Því samkvæmt stofnefnahagsreikningi sem settur var upp fyrir hið nýja fyrirtæki, Lyfjaverslun Íslands hf., var eigið fé félagsins um 430 millj. kr. Þannig að sala á hlutafénu öllu á nafnvirði upp á 300 millj. á genginu 1,34 það getur hver reiknað það út fyrir sig að það lafir í því og tæplega þó að ríkið fái eigið féð út við söluna.
    Síðan kemur í þriðja lagi enn meiri speki í niðurstöðu einkavæðingarnefndarinnar í fylgiskjali 1, þ.e. að ljóst sé að fjölmargir hafi keypt bréfin í þeim tilgangi að njóta skattafsláttar vegna hlutabréfakaupa á næsta ári. Þetta er mjög skarplega athugað og alveg örugglega rétt. Fjölmargir hafa áttað sig á því í landinu að þeir fái þennan skattaafslátt og það hefur ýtt undir þá að fá þarna 75 þús. kr. eða hvað það er, svona eins og hjálp við að eignast þessa eign. Auðvitað er þetta þannig, hæstv. forseti, að það er með miklum ólíkindum hvernig að þessum hlutum er staðið.
    Í fjórða lagi er talið að kynningin hafi tekist mjög vel og náð athygli fjölmargra einstaklinga. Það er auðvitað alveg rétt, það er hvergi til sparað. Það er borið fé í þá sem að þessu vinna og helt fé í auglýsingar og kynningu vegna þess að tilgangurinn helgar meðalið. Þetta snýst ekki um það að ríkið geri góðan bissness, það er ekki aldeilis það sem þetta snýst um, að ríkið fái sem mest fé út úr þessu. Það liggur bæði fyrir í framkvæmdinni eins og að henni er staðið, það liggur fyrir í yfirlýsingum ráðherra á kjaftafundum, að tilgangurinn skuli helga meðalið, aðalatriðið sé að einkavæða bara til að einkavæða svo megi hitt mæta afgangi svo sem hvernig að því er staðið og hvað fyrir fyrirtækin fáist.
    Þannig eru nú málin vaxin, hæstv. forseti, og er auðvitað með miklum ólíkindum. Það er þessi einkavæðingarkredda sem hæstv. ríkisstjórn lagði upp með með miklum og sverum yfirlýsingum bæði í stjórnarsáttmála og ræðum hér í byrjun kjörtímabilsins. Það átti að fara svo geyst í þetta að í fyrstu tveimur fjárlagafrv. hæstv. fjmrh. var gert ráð fyrir tekjum af einkavæðingu upp á 1.200 millj. kr., ef ég man rétt, eða a.m.k. milljarð, í fyrstu tvö skiptin. Ég held að niðurstaðan . . .  ( Gripið fram í: 1.500 millj.) 1.500 millj. er hér upplýst, enn meira í fyrsta skipti. Ég held að niðurstaðan hafi orðið einhverjar 50--100 millj. ( Fjmrh.: 1.100 millj. til að hafa þetta rétt.) Ja, þetta var einhvers staðar á bilinu 1--1,5 milljarðar í fyrstu tvö skiptin, hæstv. fjmrh. Það er nú ekki mikið milli vina. Það þætti a.m.k. ekki mikið ef það væri verið að gefa þann skiptamun við afhendingu ríkisfyrirtækis. ( JGS: Ekki mikið á milli einkavina.) Það er ekki mikið á milli einkavina svona nokkur hundruð milljónir þegar þetta á í hlut.
    En hver varð svo niðurstaðan? Hæstv. fjmrh. skóf upp einhverjar 50--100 millj. tvö fyrstu árin og er samtals að nálgast 800 millj. eða komin í 800 millj. á miðju þessu ári. Það eru nú öll afrekin. Þessum 800 millj. hefur verið náð með því meira og minna að afhenda fyrirtækin. Enda er þetta auðvitað orðið þannig að ríkisstjórnin er komin í mikla örvæntingu yfir því að hún hafi litlum árangri náð í þessum efnum og nú á að setja margfaldan kraft í útsöluna á síðustu mánuðum, halda brunaútsölu á öllum þeim fyrirtækjum sem hægt er að koma með einhverjum hætti út á markaðinn. Þannig að ég spái því að þær þyki ekki merkilegar áramóta- og nýársútsölurnar hjá versluninni hér í bæ þegar þær koma til og farið verður að reyna að selja afdankaðan jólavarning borið saman við útsölur hæstv. fjmrh. og brunaútsölur hans á ríkisfyrirtækjum á næstu mánuðum.
    Síðan er það þannig, hæstv. forseti, að það er afar fróðlegt að fara hér ofan í skýrslu sem nýlega er komin út frá Ríkisendurskoðun um sölu á fyrirtækjum í eigu ríkisins á árunum 1991--1994. Og það er nú svo að eins og ónefndir menn lesa Biblíuna með mismunandi hætti þá geta menn greinilega lesið þessa skýrslu með mismunandi hugarfari. Hæstv. fjmrh. las út úr henni mikinn stuðning við sig og frammistöðu hæstv. ríkisstjórnar í einkavæðingarmálum, taldi þetta harla góða einkunn sem þarna væri gefin og glæsilega.
    En við skulum þá líta aðeins nánar á það hvort þetta er allt þannig, að Ríkisendurskoðun í allri sinni hógværð, og kem ég nú betur að ummælum hæstv. ráðherra um þá stofnun síðar, telji þetta allt vera til fyrirmyndar. Ég held ekki. Ríkisendurskoðun er m.a. að undirstrika þau atriði sem leggja þurfi áherslu á. Hún er væntanlega ekki að því að ástæðulausu. Við framkvæmd á þessum hlutum þar er í raun og veru um lítt dulbúna harða gagnrýni á frammistöðu ríkisstjórnarinnar að ræða vegna þess að Ríkisendurskoðun sér að þessara sjónarmiða hefur ekki verið gætt. Til að mynda þess sem hún nefnir fyrst, að áður en sala eigi sér stað þurfi að liggja skýrt fyrir hver séu markmiðin með sölunni, til hvers er verið að þessu, en það hefur verið gert í fæstum ef nokkrum tilvikum hjá hæstv. ríkisstjórn vegna þess að það eru engin skilgreind efnisleg markmið á ferðinni á bak við einkavæðinguna. Þetta er bara kredda, þ.e. af því bara. Af því bara að Margrét Thatcher og hennar fylgifiskar í íhaldskreddunni fundu það út að það ætti að einkavæða þá ætlar ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og hæstv. fjmrh. Friðrik Sophusson líka að gera það. Auðvitað, því þaðan er hugmyndafræðin fengin að láni. Þetta sér Ríkisendurskoðun og lýsir eftir markmiðunum með því að selja fyrirtæki eða selja það ekki.
    Margt fleira mætti þarna nefna í helstu niðurstöðum stofnunarinnar en ég ætla að víkja aðeins að eins og þremur dæmum um það hvernig staðið hefur verið að sölu eða málum í sambandi við einkavæðinguna hjá hæstv. ríkisstjórn. Það fyrsta nefndi reyndar hæstv. fjmrh. sjálfur, þ.e. söluna á Íslenskri endurtryggingu hf. Það óvenjulega gerðist að undir dagskrármáli sem hæstv. fjmrh. var að mæla fyrir þá hljóp hæstv. fjmrh. yfir í skýrslu sem alls ekkert er hér á dagskrá í raun og veru og fór að verja hendur sínar vegna ummæla um sölu Íslenskrar endurtryggingar. Að sjálfsögðu er ég tilbúinn í þá umræðu undir þessum dagskrárlið, það er bara alveg sjálfsagt mál.
    Þar segir nú í fyrsta lagi að það sé skoðun Ríkisendurskoðunar að eignarhluta ríkisins í fyrirtækjum beri undantekningarlaust að auglýsa áður en þeir eru seldir. Það var ekki gert þegar þessi afhending á Íslenskri endurtryggingu fór fram til tryggingarfélaganna.
    Í öðru lagi segir að útreikningar bendi til þess að líklegt upplausnarvirði fyrirtækisins í árslok 1992 hafi verið 144 millj. kr. hærra en hið endanlega söluverð þess. Þá fer hæstv. fjmrh. út í hvað hér? Út í það að fara út í langa þvælu um að það sé ekki sanngjarn mælikvarði, upplausnarverðið. En hann horfir fram hjá niðurstöðunni sem Ríkisendurskoðun dregur af þessu mati sem er: ,, . . .  að miðað við þessa forsendu og reyndar fleiri sem eru tilgreindar, sýnist engu að síður sem hagsmunum ríkisins hefði verið betur gætt með því að selja hlut ríkissjóðs í fyrirtækinu ekki að svo stöddu.`` Þannig var besta hagsmunagæslan fyrir ríkið, þ.e. hætta við söluna, eiga fyrirtækið áfram. En það kom ekki til greina vegna þess að tilgangurinn helgar meðalið. Þó það liggi fyrir að það sé ekki hagstætt ríkinu að selja við tilteknar aðstæður þá skal það samt gert þó það kosti útsölu, þó það kosti minna endurgjald. Ég held að þetta dæmi með Endurtrygginguna sem engin knýjandi nauðsyn af neinu tagi lá til að selja og augljóslega hefði verið betra annaðhvort að leysa upp eða eiga áfram þá var það samt valið að selja hana og það með þessum hætti. Það segir allt sem segja þarf um það hvað hér er á ferðinni.
    Í öðru lagi er ákaflega fróðlegur en því miður stuttur kafli um fyrirtækið Rýni hf. Það er sennilega dregið af sögninni að rýna, þegar menn rýna í eitthvað, ætla að sjá eitthvað sem er í skugga. En þannig er, hæstv. forseti, að eitt af þjóðþrifafyrirtækjunum sem hæstv. ríkisstjórn stofnaði var hlutafélagið Rýni hf., sem var stofnað í kjölfar ákvörðunar stjórnvalda um að færa eftirlit með framleiðslu sjávarafurða frá Ríkismati sjávarafurða til skoðunarstofa í einkaeign. Með öðrum orðum, stofnun Rýnis hf. var holdgetið skilgetið afkvæmi einkavæðingarbröltsins í eftirlitsiðnaðinum. En það er eins og kunnugt er einhver blómlegasti iðnaður á Íslandi um þessar mundir og eiginlega eina greinin í íslenskum iðnaði sem dafnar, það er eftirlitsiðnaðurinn, sem þessi ríkisstjórn hefur verið með afbrigðum dugleg við að þenja út með stofnun skoðunarstofa og fiskistofa og alls konar eftirlitsbattería, í einkarekstri að sjálfsögðu ef nokkur kostur er, þá hefur eftirlitsiðnaðurinn þanist þannig út að í honum hafa skapast mörg hundruð störf og það er kannski jákvætt í sjálfu sér eins og hæstv. ríkisstjórn hefur að öðru leyti leikið atvinnulíf landsmanna. En sem sagt þetta fór nú svona og svona með Rýni hf. Þetta varð ekki mikil ferð til fjár þessi fyrirtækjarekstur hæstv. ríkisstjórnar. Þannig fór, eins og segir á bls. 13, með leyfi forseta, í skýrslu Ríkisendurskoðunar:
    ,,Það kom hins vegar fljótlega í ljós að ýmsar forsendur sem gengið var út frá stóðust ekki. M.a. af þeim sökum var tekin ákvörðun um að selja fyrirtækið enda töldu stjórnvöld ekki ástæðu til að hafa með

höndum þann rekstur sem einkaaðilar væru færir um að sinna.``
    En til hvers var þá fyrirtækið stofnað, hæstv. fjmrh.? Til þess að selja það aftur? Er þetta til þess að fá fleiri prik í einkavæðingunni, stofna fyrirtæki til að geta svo selt þau? Það er auðvitað ágætis aðferð ef menn eru alveg í vandræðum.
    Niðurstaðan er sem sagt að með sölunni náði ríkið aðeins að endurheimta hluta þeirra fjármuna sem ráðstafað hafði verið til fyrirtækisins. Tap af rekstri og sölu Rýnis hf. nam þannig um 16 millj. kr. Það var nú allt sem ríkisstjórnin hafði upp úr krafsinu í þessu einkavæðingarbrölti að hún tapaði 16 millj. kr. á fyrirtækinu. Þetta er lítil en fróðleg saga um það út í hvaða ógöngur og vitleysu ríkisstjórnin hefur leiðst í þessu brölti sínu, þó hitt sé auðvitað miklu mun lakara að viðskiptavinir eftirlitsfyrirtækjanna eru að borga það dýrum dómum að þessi einkavæðing eftirlitsbransans hefur reynst mjög dýr og vitlaus og þjóðin ber það í hærri skoðunargjöldum á bifreiðum, í hærri gjöldum fyrir sjávarútveginn og útflutningsgreinarnar í sambandi við eftirlit, vottanir, skoðunarstofur og hvað sem það nú heitir allt saman og margfalt kerfi í staðinn fyrir einfalt áður. Þannig er það. Það er t.d. þannig hjá fiskeldisfyrirtækjum að þau þurfa í raun og veru í aðalatriðum þreföld vottorð til að koma framleiðslu sinni á markað þar sem einföld vottorð dugðu áður, með tilheyrandi kostnaði. Það er afraksturinn af bröltinu, einkavæðingunni í eftirlitsiðnaðinum.
    Í þriðja og síðasta lagi, hæstv. forseti, langar mig til að nefna SR-mjöl. Langþyngsti og harðasti áfellisdómurinn sem ríkisstjórnin verður fyrir er í umfjöllun Ríkisendurskoðunar um SR-mjöl. Um það hefur auðvitað komið út alveg sérstök skýrsla og það er rétt, hæstv. fjmrh., að Ríkisendurskoðun hefur ekki séð ástæðu til að draga álit sitt og niðurstöður sínar þar til baka. Svo kemur hæstv. fjmrh. hér og harmar það. Er hæstv. fjmrh. virkilega með þessum hætti að reyna að blanda sér í störf Ríkisendurskoðunar, reyna að hafa áhrif á það að hún standi ekki á niðurstöðum sínum? Hvað fólst í orðum hæstv. ráðherra hér áðan? Fyrir furðuleg ummæli hans um stofnunina hér, þegar hæstv. ráðherra í skjóli þinghelgi skýtur sér hér á bak við ummæli einhverra ráðuneytisstjóra, gagnmerkir sem þeir mega vera, og fer með lítt dulbúnum dylgjum á hendur Ríkisendurskoðun og segir að stofnunin sé svo ung, nánast bara eins og óviti, að hún sé væntanlega ekki fullmeðvituð um gerðir sínar því hún sé svo ung undir Alþingi. Síðan sagði hæstv. ráðherra að það kæmu þar af leiðandi upp aðstæður sem yrði að afsaka. Ég leyfi mér að halda því fram að það sé ekki hlutverk hæstv. fjmrh. hér í þessum ræðustól að vera að biðjast afsökunar á Ríkisendurskoðun. Ég leyfi mér að halda því fram að það sé hlutverk fjmrh. að vera maður til að taka niðurstöðum Ríkisendurskoðunar og rökræða þær þá en ekki fara að biðjast afsökunar á þeim fyrir hönd stofnunarinnar. Það eru aðrir sem fara með málefni Ríkisendurskoðunar, fyrst og fremst stofnunin sjálf í anda þess óhæðis sem hún verður að búa yfir til að geta sinnt starfi sínu. En ég verð að segja alveg eins og er að þessi ummæli hæstv. fjmrh. hér fundust mér einhver þau kúnstugustu sem ég hef lengi heyrt, þessi ummæli um Ríkisendurskoðun, og það er mín trú að þeirra muni lengi minnst. Að ráðherra sem liggur undir þungri gagnrýni, ráðherra í ríkisstjórn sem hefur sætt ámæli og ítrekuðum aðfinnslum vegna framgöngu sinnar í málum af þessu tagi, að hann bregðist við með þessum hætti, það var mjög sérkennilegt. Það er að sjálfsögðu allt annað mál þó að hæstv. fjmrh. sé ekki sáttur við einhverjar ályktanir eða niðurstöðu hjá Ríkisendurskoðun. Menn hafa að sjálfsögðu þann rétt að hafa sína skoðun á málinu og vera ósammála henni í einstökum atvikum ef svo ber undir. Það er allt annar hlutur en að umgangast stofnunina með þeim hætti sem hér var gert.
    Hæstv. forseti. Ég tel að niðurstaðan sé ein og hin sama hvort sem heldur er þessara þriggja dæma, sem ég hef tekið úr skýrslu Ríkisendurskoðunar, um afhendingu og útsölur á ríkisfyrirtækjum, sem er náttúrlega réttnefni á plagginu, eða hvort við lítum á það hvernig Ríkisendurskoðun hefur staðið að þessu með Lyfjaverslun ríkisins, nú Lyfjaverslun Íslands. Niðurstaðan er sú að tilgangurinn helgar meðalið. Hún er sú að það skipti ríkisstjórn Sjálfstfl. og Alþfl. meira máli að þjóna kreddunni. Og hvar eru kratarnir hér í dag, hæstv. forseti, fyrir utan þann sem er bundinn í forsetastóli? Það eru ekki margir hér til að svara fyrir þátttöku Alþfl. í málinu. Það væri fróðlegt að fá að sjá þó ekki væri nema eins og einn krata hér í dag fyrir utan hæstv. forseta sem eðli málsins samkvæmt getur ekki geisað mikið inn í umræðuna nema fá einhvern til þess að leysa sig af. Ég lýsi eftir því: Er Alþfl. sáttur við það hvernig ríkisstjórnin hefur staðið að þessu? Niðurstaðan er sú að ríkisstjórnina skiptir meira máli að þjóna kreddunni, að halda útsölu á fyrirtækjunum, að afhenda bara einhvern veginn eigur almennings hvað sem fæst fyrir þær heldur en í fyrsta lagi verðið. Verðið er aukaatriði borið saman við hitt, bara að einkavæða, af því bara, af því að Thatcher gerir það. Í öðru lagi er starfsemin sem í hlut á aukaatriði, ( Gripið fram í: Er ekki Thatcher hætt þessu?), Thatcher er að vísu hætt af því að hún var felld. Þannig endaði nú hennar ganga í þessum ósköpum. Það voru þakkirnar í Bretlandi fyrir afrekin í einkavæðingu, hún var felld. Í þriðja lagi skiptir starfsfólkið hæstv. ríkisstjórn engu máli. Það er algert aukaatriði. Tímans vegna hef ég lítið komist í að ræða þann þátt málsins en ég geri það kannski síðar í umræðunni. Framkoma ríkisstjórnarinnar við starfsfólk í þessum málum er fyrir neðan allar hellur enda eru í gangi dómsmál út af því hvernig ríkisstjórnin hefur einhliða svipt opinbera starfsmenn réttindum í tengslum við einkavæðinguna.
    Sem sagt, allt þetta er aukaatriði í augum ríkisstjórnarinnar. Verðið sem fæst fyrir eignirnar, starfsemin sem í hlut á, fólkið sem vinnur þar. Nei, það er kreddan, það er af því bara. Einkavæða af því bara sem skiptir öllu máli. Það er meginniðurstaðan.
    Auðvitað er það svo, hæstv. forseti, að maður tekur ekki nema mátulega alvarlega að hæstv. ríkisstjórn sé að burðast við að koma með þessi mál inn í desembermánuði þegar 5--6 vikur eru eftir af þinghaldinu og er þó næsta einkavæðingarmál hér á eftir af sama toga, Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins sem á að eyðileggja. Ég bind svo sannarlega vonir við að nú verði punkturinn settur yfir i-ið og ekki verði um frekari einkavæðingar að ræða sem Alþingi heimili, a.m.k. á þessu kjörtímabili, og síðan komist heilbrigðari viðhorf að í þessum að í þessum efnum á hinu næsta. Auðvitað er það svo að verkaskipting ríkis, sveitarfélaga og einkarekstrarins á á hverjum tíma að vera til endurskoðunar og endurmats. Sumar af þeim breytingum, sem gerst hafa á þessu kjörtímabili, gætu frá því sjónarmiði séð verið fullkomlega eðlilegar og ég gæti stutt þær. Ég tel til að mynda að það hafi í sjálfu sér verið allt í besta lagi að einkaaðilar tækju við rekstri eins og Gutenberg, ríkisprentsmiðjunnar sálugu, og Jarðborana sem ríkið átti með Reykjavíkurborg. Allt í góðu lagi fyrir mig og ég er fullkomlega tilbúinn til að ræða það enda sé þá þannig að því staðið að í fyrsta lagi fáist sanngjarnt og raunhæft verð fyrir fyrirtækin þannig að hin opinbera eign, eign almennings í landinu sé ekki gefin, ekki fyrir borð borin. Í öðru lagi skaðist starfsemin ekki og í þriðja lagi sé um þetta gott samkomulag við starfsfólk. En ýmsir aðrir þættir í þessu ofstæki ríkisstjórnarinnar eru mun alvarlegri þegar í hlut á viðkvæm starfsemi og þegar þessum þáttum er ekki sinnt eins og ég hef þegar gert grein fyrir, verðinu og högum starfsfólksins.
    Ég held að lokum, hæstv. forseti, að það megi verða þeim mönnum umhugsunarefni sem trúðu á að hægt væri að gera málamiðlun eða semja við þessa ofstækismenn í einkavæðingu sem hér eru á ferð í ríkisstjórninni eins og í raun og veru fólst í afgreiðslu frv. hér í fyrra. Ég held að menn ættu að hugsa sig um. Það er ekki mikið komandi nálægt mönnum sem standa þannig að málum eins og hér ber raun vitni. Ég vona að eitthvað hafi fokið í þá framsóknarmenn við þá framkomu sem þeim er sýnd nokkrum mánuðum eftir að þeir voru ginntir til að standa að afgreiðslu þessa máls með ríkisstjórninni um að selja helming fyrirtækisins en ekki nema helming, þá er hér flutt frv. blygðunarlaust í kjölfar útsölunnar um að halda útsölu á hinum helmingnum. Ég óska hverjum þeim til hamingju sem ætlar að ganga í það verk með ríkisstjórninni að halda þessa brunaútsölu á leifunum af Lyfjaverslun ríkisins. Veskú segi ég bara.