Lyfjalög

50. fundur
Þriðjudaginn 06. desember 1994, kl. 16:23:20 (2228)


[16:23]
     Guðmundur Hallvarðsson :
    Virðulegi forseti. Örstutt athugasemd vegna þessa máls sem hér er til umfjöllunar. Ég er einn af þeim sem undirrita þetta mál án nokkurs fyrirvara og tel því að ég þurfi ekki að gera langa grein fyrir máli mínu, en nokkuð hefur komið fram það sem um var rætt í heilbr.- og trn. En það er nú kannski svo að þegar þetta mál kom til umræðu og fulltrúar bænda komu m.a. á fund hv. heilbr.- og trn. þá lá það í augum uppi að lyfjalögin höfðu verið sett þannig að þau voru ekki aðlæg að bændum eins og þau hljóðuðu og með það í huga að við erum kannski oftar en ekki hér á hinu háa Alþingi að setja lög sem ekki eru aðlæg að fólkinu en eru ætluð til þess að hið gagnstæða sé, þá hef ég þó verið þeirrar skoðunar að sú breyting sem hér er verið að gera á lyfjalögum sé þess efnis og af hinu góða og séu því aðlæg að bændum og þeirra starfsháttum. Það er í hæsta máta óeðlilegt þegar dýralæknir kemur til bónda og þarf að skoða hans búfénað og skrifar lyfseðil að bóndi þurfi að aka á eftir dýralækni 70 eða 100 km til þess að ná í þau lyf sem dýralæknir hefði annars getað haft í fórum sínum. Þannig hefur þetta verið í gegnum árin og ég sé ekki neina ástæðu til breytinga þar á til óhagræðis fyrir bændur og þess vegna skrifaði ég undir þetta álit heilbr.- og trn. án nokkurs fyrirvara.