Lyfjalög

50. fundur
Þriðjudaginn 06. desember 1994, kl. 16:25:18 (2229)


[16:25]
     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég gerði grein fyrir mínum fyrirvörum við síðustu umræðu svo að ég ætla ekki að ítreka það mjög, en ég vildi samt undirstrika það að orsökin fyrir því að ég skrifaði undir eða var fús til þess að skrifa undir þetta frv. og vera með því var sú að ég taldi mig vera vissa um það að þetta væri ósk neytendanna og ég álít að frumvörp eigi fyrst og fremst að þjóna þörfum fólksins, þ.e. hins almenna neytanda, en ekki einhverra annarra. Þess vegna var ég fús til að standa að þessu frv.
    Ég hef þegar rætt mína fyrirvara á þessu, en ég vil aðeins undirstrika enn aftur sem ekki hefur verið komið inn á af öðrum. Ég álít að það þurfi að standa a.m.k. í reglugerð með þessu frv. hvaða skilyrði dýralæknirinn þarf að uppfylla um geymslu, vörslu og afgreiðslu dýralyfjanna. Það verða að vera skýr ákvæði um það að ekki sé farið verr með eða á annan hátt með þessi lyf heldur en lyf sem gefin eru okkur tvífætlingunum sem erum að setja þessi lög.