Áætlun um að draga úr áfengisneyslu

50. fundur
Þriðjudaginn 06. desember 1994, kl. 16:43:12 (2231)

[16:43]
     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Bara rétt aðeins innskot. Ég get tekið undir það með hv. flm. að það er þarft verk að berjast gegn ofneyslu áfengis. Ég held að það hljóti að vera markmiðið fyrst og fremst og það held ég að eigi að gera með stöðugri fræðslu en ekki með fordómum. En ég var svona að glugga í greinargerðina undir ræðu frsm. og mig langar til að gleðja hann með ákveðnum upplýsingum sem ég fyrir tilviljun hafði á borði mínu. Það kemur fram í greinargerðinni þar sem rætt er um könnun sem Ása Guðmundsdóttir og dr. Tómas Helgason stóðu fyrir og rituðu síðan grein, en um það segir í greinargerðinni, með leyfi forseta:
    ,,Það sem veldur áhyggjum er hversu mjög drykkja þeirra sem neyta áfengis hefur aukist eftir að bjórsalan var leyfð. Gagnstætt vonum jókst neysla sterkra drykkja verulega.``
    Af því að ég var með þetta á borði mínu, upplýsingar um sölu á áfengi á Íslandi fyrstu níu mánuði ársins, þá get ég sagt að þetta er fullyrðing sem ekki stenst vegna þess að á fyrstu níu mánuðum og þá er maður að horfa til sterku drykkjanna, það eru drykkir sem eru yfir 22% að styrkleika, þá t.d. fer koníak og brandí niður um 5%, viskí fer niður um 0,5%, brennivín fer niður um 24,5%, vodka fer niður um 8,7%, gin fer niður um 5%, sjénever fer niður um tæp 13%, romm fer niður um rúmlega 7%. Það er því ljóst að neysla sterkra drykkja er á mikilli niðurleið og tel ég að það ætti að gleðja þá sem vilja berjast gegn of mikilli neyslu sterkra drykkja.

    Á hinn bóginn verður að viðurkenna að sala á áfengu öli hefur farið mjög vaxandi. Til að gæta sannmælis jókst salan í bjór á þessu sama tímabili um 28% sem er auðvitað veruleg aukning.
    Þetta vildi ég að kæmi hér fram. Mig langar einnig að spyrja um tvö önnur atriði í greinargerðinni. Á bls. 2 segir í efstu línu, með leyfi forseta:
    ,,Seljendur sterkra drykkja hafa síðan runnið á peningalyktina og hafið að auglýsa vöru sína sumir hverjir.``
    Ég óska eftir skýringum á þessu. Ég hef orðið var við það að seljendur bjórs, sterks öls, hafi snúið á kerfið í þessum málum, en ég kannast hvorki við það að umboðsmenn sterkra drykkja né léttra heldur hafi farið þá leið, einungis umboðsmenn þeirra sem selja bjór. Síðan segir hér í lokin á bls. 3, þar sem rætt er um markvissar aðgerðir sem gætu m.a. falist í eftirfarandi. Þar segir í lið 1 að þess megi geta að í Frakklandi þar sem áfengisframleiðsla er mikilvægur atvinnuvegur er bannað að heimila veitingastöðum við hraðbrautir að selja áfengi. Þetta vil ég bara segja að er beinlínis rangt vegna þess að þetta þekki ég af eigin raun, ég hef ferðast töluvert þarna um, ekið mikið um og stoppað mikið á þessum stöðum, meira að segja gist á þessum stöðum og þetta stenst engan veginn þann veruleika sem ég hef upplifað á hraðbrautum í Frakklandi.