Lyfjaverslun Íslands hf.

50. fundur
Þriðjudaginn 06. desember 1994, kl. 20:55:07 (2249)


[20:55]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hefði talið eins og ég sagði áðan réttara að fylgja þessu eftir með því að vera ekki að selja þetta allt saman í einu heldur skoða hvaða áhrif það hefði þegar búið er að selja núna helminginn af fyrirtækinu og reyna þannig að tryggja það að fyrirtækið skilaði því verkefni sem því er ætlað að gera. Ég tel að það sé engan veginn hægt með því að flýta sér svo mjög við að selja þetta eins og nú er fyrirhugað með þessu frv.
    Hvað varðar Skipaútgerð ríkisins þá er það rétt að hún var rekin með miklum halla en hún þjónaði líka ákveðnum byggðarlögum sem núna standa uppi þannig að þau eiga að treysta á samgöngur á landi. Nægir þar að nefna eitt hérað úr mínu kjördæmi sem er Árneshreppur úr Ströndum þar sem vegasamgöngur eru þannig að á þær er ekki að treysta nema kannski 3--4 eða mesta lagi 5 mánuði yfir árið. Síðan Ríkisskip hætti að starfa hefur verið Vegagerðin styrkt frá mánuði til mánaðar eina ferð í mánuði til þess að halda þarna uppi flutningum, en það er ekkert tryggt í þeim efnum og þeir sem þarna búa vita ekkert hversu lengi því verður við haldið og lítið sem ekkert er gert í því að bæta þann veg sem núna á að koma í staðinn fyrir þær samgöngur sem Skipaútgerðin hélt uppi.