Stjórnarfrumvörp um innflutning og sölu á áfengi

50. fundur
Þriðjudaginn 06. desember 1994, kl. 23:39:44 (2279)

[23:39]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég verð að taka undir það að mér finnst voðalega stutt taugin í hæstv. fjmrh. Hér stendur upp einn þingmaður og gerir gilda efnislega athugasemd við það með hvaða hætti þessi mál eru fram borin, bendir á augljósan galla í framsetningu málsins og í greinargerðum beggja frv. Það er beinlínis villandi eins og þetta er fram sett, en þá rýkur hæstv. fjmrh. upp og gefur sér það að menn ætli sér unnvörpum að fara að standa í einhverju ströggli gegn þessu máli. Mér finnst þetta óþarflega bráðræðislegt allt saman hjá hæstv. fjmrh. og eins og hann væri hálfpirraður á því að hafa fengið mikla umræðu um það mál sem hann var með á dagskrá næst á undan. Ég hefði kallað það ágætt dagsverk að búið er að útkljá 1. umr. um það mál.
    Ég leyfi mér að óska eftir því, hæstv. forseti, að umræðu um þessi stóru mál verði frestað og hún verði tekin fyrir á nýjum degi á eðlilegum fundartíma og ég vil færa fyrir því nokkur rök. Hér er á ferðinni stórmál. Það er alveg augljóst mál í mínum huga að um þessi mál hljóta að verða miklar umræður vegna þess að þau koma inn á grundvallaratriði í sambandi við stefnumótun í áfengismálum. Alla vega er það ljóst af minni hálfu að ég mun nýta mér ræðutíma minn til þess að fjalla um þessi mál og ég vek athygli á því að óskað hefur verið eftir tvöföldum ræðutíma um fyrra dagskrármálið eða jafnvel þau bæði. Við þær aðstæður tel ég óeðlilegt að slengja þeim saman í umræðu. Ég tel eðlilegt að sá tími sem óskað hefur verið eftir að fá til að ræða málið nýtist til að ræða fyrra málið, sem er grundvallarmálið, hitt er meira eins og afleiðing af því, frv. til laga um að leggja á sérstakt gjald við innflutning.
    Ég óska þess vegna eftir því að forseti hagi þessu þannig að hinn tvöfaldi ræðutími verði nýttur í umræðu um 3. dagskrármál og það verði rætt fyrst og sérstaklega. Í öðru lagi að sú umræða fari fram á nýjum fundi á eðlilegum fundartíma.
    Í þriðja lagi, hæstv. forseti, þá óska ég eftir því að þegar sú umræða fer fram þá verði hæstv. heilbrrh. viðstaddur umræðuna. ( Gripið fram í: Og dómsmrh.) Og út af fyrir sig hæstv. dómsmrh. einnig. Ég tel að áfengisvarnamálin og áfengismálin sem heilbrigðisvandamál standi mjög nálægt verksviði hæstv. heilbrrh. Þó svo að forvarnastarfið og áfengislögin sem slík heyri undir dómsmrh. þá tel ég að báðir þessir

hæstv. fagráðherrar þurfi að vera viðstaddir umræðuna til að hægt sé að eiga við þá orðastað um afleiðingar af því að fara út í þær skipulagsbreytingar sem er verið að boða í frv.
    Mín ósk er fyrst og fremst, hæstv. forseti, að fundinum verði frestað eða umræðum um þessi mál. Í öðru lagi að þau verði rædd sitt í hvoru lagi og í þriðja lagi að þessir tveir hæstv. ráðherrar verði viðstaddir þegar og ef umræðan fer fram.
    Skyldi það verða niðurstaða forseta, sem ég hef enga trú á, að það verði haldið áfram með þessa umræðu nú þá óska ég eftir því að þessir tveir ráðherrar verði sóttir.