Átak í málefnum barna og ungmenna

52. fundur
Fimmtudaginn 08. desember 1994, kl. 15:52:06 (2431)


[15:52]
     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér hafa verið haldnar fróðlegar og merkar ræður um þessa þáltill. og ég vildi gjarnan bæta örlitlu þar við. Í þáltill. eru efndir 8 þús. einstæðir foreldrar og eru fjölmargir þeirra kornungir. Þess vegna held ég að það sem hæstv. ríkisstjórn þyrfti að gera sérstaklega til að styðja þá foreldra sé ekki eingöngu fræðsla sem við erum að fjalla um þó hún sé mjög mikilvæg. Það er nefnilega mjög mikilvægt að efla forvarnastarf með því að efla foreldrafræðslu eða fræðslu um fjölskylduna og ábyrgðarhlut hvers manns í samfélaginu snemma á lífsleiðinni og miklu fyrr en ungmennið er orðið foreldri. En það er áberandi hversu margar einstæðar mæður hafa átt sín fyrstu börn snemma. Það þarf líka að gera ýmislegt fleira til að bæta aðstöðu einstæðra foreldra. Fjölmargir einstæðir foreldrar eru í láglaunahóp vegna þess að þau hafa snemma eignast börn og þá hrökklast úr námi og ekki haft möguleika á því að öðlast þá menntun sem til þarf til að fá starf sem veitir laun svo nokkru nemi. Þess vegna er eitt af því sem gera þarf að styðja foreldrana á ýmsan hátt til að þeir geti stundað nám til að bæta stöðu sína. En fræðsla bæði um varnir gegn barneignum og þá ábyrgð sem foreldrar eru að takast á hendur þarf að vera miklu meiri en verið hefur.
    Í greinargerðinni er fjallað um stöðu þeirra barna þar sem foreldrar eða forsjármenn hafa búið við langvarandi atvinnuleysi. Allir þeir sem að þessum málum hafa komið vita að atvinnuleysi foreldra hefur geysileg áhrif á börnin. Þeim hættir til að flosna upp úr skóla því að um leið og sjálfsmynd foreldranna hrynur þá hrynur sjálfsmynd barnanna. Þetta er hlutur sem við gerum okkur ekki alltaf nógu vel grein fyrir en þau fara að forðast skólann því þau eru með stimpilinn ,,pabbi þinn og mamma eru atvinnulaus`` og kannski er heldur ekki alltaf til nógu mikið af mat heima til að halda uppi þrekinu svo börnin geti stundað skólann. Ég vildi sérstaklega benda á þessa þörf að styðja sérstaklega við þessi börn sem þarna eiga sameiginlegan vanda með foreldrum sínum.
    Fjölmörg börn foreldra sem lenda í skilnaði, kenna sér sjálfum um skilnaðinn, þau fara að leita að skýringu og ósjálfrátt kenna þau sjálfum sér um það og þau lenda oft í miklum vanda sem ég held að sé mjög oft ekki tekið á. Þeim er ekki hjálpað til þess skilnings að það sem skeð hefur er ekki þeim að kenna á nokkurn hátt. Mér er ekki kunnugt að það sé til neitt slíkt kerfi sem tekur sérstaklega á þessum vanda en það ætti að vera í rauninni nokkuð auðvelt að gera það.
    Hæstv. félmrh. nefndi hér að við þyrftum nýja eflda fjölskyldustefnu. Ég vil breyta þessu og segja að við þurfum nýja þjóðlífsstefnu. Við þurfum þjóðlífsstefnu sem byggist á öðrum gildum en hingað til hefur verið. Íslensk þjóð hefur ekki efni á því bruðli sem hún hefur búið við og þeim gildum sem við höfum haft í heiðri, þau gildi að leðursófasett sé meira virði en dagur uppi í sveit með barninu sínu og þau gildi að því fínni sem bíllinn er þeim mun mikilvægari séu menn í samfélaginu, þessi gildi þurfa að hverfa. Þau gildi þurfa að koma í staðinn í samfélaginu í heild að það sé mikilvægast að standa undir sínum skyldum og standa undir þeirri ábyrgð sem maður tekur sér á hendur og að njóta þess sem við höfum allt í kringum okkur.
    Því miður hefur það verið stefna í vestrænum samfélögum, ekki bara Íslands heldur í fjöldanum öllum af öðrum vestrænum samfélögum að það sé mikilvægast að kaupa, eyða og kaupa upp á nýtt. Þessi sífellda hringrásarstefna sem hefur verið í gangi hefur eyðilagt fjölmörg heimili því að fólkið hefur ekki getað staðið undir því að eyða og kaupa stanslaust og fá þannig á sig stimpil hinnar velmegandi fjölskyldu og börnin hafa fyrst og fremst orðið að líða fyrir þetta því að vinnudagurinn hefur sífellt lengst út á þetta. Þar við bætist svo láglaunastefna sem í landinu hefur verið og við þurfum því ekki bara að hugsa okkur upp nýja fölskyldustefnu heldur breytta launastefnu og breytt gildismat í heild. Hæstv. ríkisstjórn núverandi, næstkomandi og allar ríkisstjórnir þurfa að halda uppi fræðslu og jafnvel áróðri til þess að breyta þessum gildum sem því miður tröllríða íslensku þjóðlífi og raunar mörgum öðrum samfélögum en þó held ég að íslenska samfélagið sé einna verst komið í þessum efnum.
    Það væri sjálfsagt hægt að segja miklu meira um einstaka þætti þessarar greinargerðar, t.d. áfengisvandamál sem sífellt er vaxandi og hefur nú verið rætt hér í dag, en mér finnst gott að þessi tillaga skuli koma fram núna einmitt til að undirstrika það að þau tvö frumvörp sem átti að ræða um í dag, um áfengissölu og liðkun á áfengisútsölum, því að mér skilst að áfengisútsalan hafi verið svo stirð í vöfum eftir því

sem hæstv. fjmrh. sagði, að þetta skuli koma fram um leið til að benda á að það er allt annað sem við þurfum í dag heldur en liðkun á áfengissölu. Við þurfum breytta þjóðlífsstefnu og breytta stefnu gagnvart fjölskyldunum og börnunum í landinu.