Fjáraukalög 1994

53. fundur
Föstudaginn 09. desember 1994, kl. 16:13:44 (2502)


[16:13]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hv. 1. þm. Vesturl. furðaði sig á því að ég skyldi ekki fagna því að það væri tækifæri í augsýn með einhverja stóriðjukosti í sambandi við þær 15 millj. sem veita á til markaðsskrifstofu iðnrn. Ég vil bara benda á það eins og ég gerði áðan að ég tel að hér sé um mengandi stóriðju að ræða. Við kvennalistakonur erum ekki á móti stóriðju, enda höfum við lagt fram frv. um vetnisframleiðslu sem er stóriðja, en við erum á móti mengandi stóriðju. Ég efast um að sinkverksmiðja sé eitthvað annað en mengandi stóriðja, a.m.k. hefur hún verið það í öðrum löndum.
    Í öðru lagi þá held ég að þeim 15 millj. kr. væri betur varið til að styrkja ýmis atvinnufyrirtæki sem eru að þreifa sig áfram í nýsköpun og nýrri atvinnu hér á landi en að veita því til markaðsskrifstofunnar í þessu skyni. Það er fyrst og fremst það sem ég átti við með þessari athugasemd hér áðan.
    Hv. 1. þm. Vesturl. gerði einnig athugasemd við það að við stjórnarandstæðingar hefðum ekki haft á orði þann gleðiboðskap að vextir hefðu lækkað á þessu ári. Það er vissulega rétt að vextir lækkuðu framan af árinu en þeir hafa bara því miður verið að hækka núna seinni hluta ársins. Það stefnir í að þeir muni halda því áfram.